Útbreiðsla grjótkrabbans eykst hratt

Deila:

Niðurstöður rannsókna sýna að grjótkrabbi er orðinn algengasta krabbategundin á mjúkum botni á grunnsævi við Suðvesturland. Þéttleiki hans þar er einn sá hæsti sem vitað er um fyrir tegundina, 0,5 krabbar/m2. Útbreiðsluaukning krabbans hefur verið mjög hröð og dekkar samfelld útbreiðsla hans nú um 70% af strandlengjunni, frá Faxaflóa og norður í Eyjafjörð.

Ó. Sindri Gíslason, forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlands, og Halldór Pálmar Halldórsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurnesjum, flytja erindið „Rannsóknir á grjótkrabba við Ísland: hvað vitum við í dag?“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 29. nóvember kl. 15:15.

Ó sindri gislason_halldorphalldorsson

Í erindinu verður fjallað um landnám grjótkrabba (Cancer irroratus) við Ísland frá því hann fannst fyrst hér við land og hvernig hann hefur breiðst út til dagsins í dag. Rannsóknir á útbreiðslu og þéttleika hafa farið fram bæði á fullorðnum einstaklingum sem og lirfum. Samhliða rannsóknum á grjótkrabba hafa fengist mikilvægar grunnupplýsingar um þéttleika tveggja algengustu krabbategundanna á grunnsævi við Ísland, þ.e. bogkrabba (Carcinus maenas) og trjónukrabba (Hyas araneus).

„Erfðafræðilegur breytileiki grjótkrabbans hefur nú bæði verið skoðaður innan hans náttúrulegu heimkynna í Norður Ameríku og við Ísland, en þetta er í fyrsta skipti sem erfðabreytileiki innan tegundarinnar hefur verið skoðaður. Niðurstöður rannsóknanna sýna fram á að erfðabreytileiki innan Íslands er svipaður og í Norður Ameríku og hér eru engin merki um landnemaáhrif.

Landnám og útbreiðsla grjótkrabbans við Ísland hefur gengið hratt fyrir sig og virðist honum vegna vel hér. Hár erfðabreytileiki, skortur á landnemaáhrifum, hröð útbreiðsla og hár þéttleiki bæði lirfa og fullorðinna einstaklinga benda til að tegundin þrífist vel við Ísland og sé komin til að vera,“ segir í frétt á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands um erindi þeirra félaga.
Ljósmynd: Ó. Sindri Gíslason

 

Deila: