Fengu stórufsa á Tánni

Deila:

Ísfisktogarinn Helga María AK kom til hafnar í Reykjavík fyrr í vikunni með fullfermi eftir velheppnaða veiðiferð á miðin suður af Reykjanesi. Í túrnum á undan var aflinn um 135 tonn en þá var veður mun verra.

 ,,Ég er ánægður með túrinn,” segir Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri, í samtali á heimasíðu Brims.

,,Við fengum uppistöðu aflans, fimm til sex kílóa stórufsa, austanvert á Tánni, sunnan Grindavíkur, en þar voru ein 15 skip í góðri veiði. Það var eitthvað byrjað að fjara undan veiðinni þegar við héldum til hafnar,” segir Heimir en hann segir að ekkert hafi verið reynt sérstaklega við þorsk að þessu sinni. Ufsaveiðin hafi einfaldlega dugað þeim.

Líkt og fyrr var borið niður á fleiri stöðum en Tánni. Austan við Tána var töluverð ýsuveiði. Það var því ekki stoppað lengi á þeim slóðum enda reyna flestir að forðast ýsuna eins og kvótum er háttað. Heimir endaði svo túrinn með því af fylla lestarnar með gullkarfa austast á Heimsmeistarahryggnum.

,,Það er að bresta á hávertíð og maður hefði því vænst þess að sjá meira af þorski á ferðinni. Það er búinn að vera þorskur í Jökuldjúpinu og svo er eitthvað af þorski á Eldeyjarbankanum og í kantinum á honum. Þorskurinn gerir sig örugglega meira gildandi næstu daga,” segir Heimir Guðbjörnsson.

Deila: