Þyrluæfing hjá Blængsmönnum

Deila:

Skipverjar á Blængi NK æfðu að taka á móti björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar út af Helguvík nú í vikunni. Áður hafði áhöfnin æft notkun léttabátsins um borð við Hafnarfjörð. Blængur hafði verið að veiðum á Eldeyjarbanka en þurfti að sigla í var vegna veðurs og þá var tíminn nýttur til björgunaræfinga.

Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Theodórs Haraldssonar skipstjóra og spurði hann sérstaklega út í þyrluæfinguna. „Ég hafði samband við þyrluna og því var vel tekið að nýta tímann til æfinga. Áhöfn þyrlunnar,TF SYN, æfði með áhöfnum þriggja skipa sem lágu þarna í vari, en auk okkar fengu áhafnir Björgvins EA og Tjalds SH æfingu í gær. Þegar æfingin fór fram var tiltölulega hvasst eða 18-20 metrar en hinsvegar sjólaust. Við æfinguna þarf að gæta að mörgu eins og til dæmis stefnu skipsins, hraða þess og síðan að hafa allt klárt á dekkinu. Það sigu tveir menn úr þyrlunni og eins voru sjúkrabörur sendar um borð og hífðar upp. Við tókum á móti mönnunum og börunum og æfðum allt sem gera þurfti. Það var mjög gott og gagnlegt að fá þessa þyrluæfingu en við höfum aldrei æft með þyrlunni áður. Eins var gott að nota tímann í brælunni til þessara æfinga því öryggismálin mega aldrei gleymast,“ segir Theodór.

Að lokinni þyrluæfingunni hélt Blængur út á Eldeyjarbanka á ný en í gærmorgun var hann að karfaveiðum á Melsekk.

 

Deila: