Engar forsendur fyrir lokun Djúpsins

Deila:

Gunnar Bragi Sveinsson, alþingismaður og oddviti Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi segir engar forsendur fyrir því að loka fyrir fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. Þetta segir hann í grein sem birtist á fréttavefnum bb.is Greinin fer hér á eftir:

Síðastliðið haust setti ég af stað sem sjávarútvegsráðherra, vinnu við stefnumótun fyrir fiskeldi en þar var lagt upp með að taka tillit til allra þeirra þátta sem varða uppbyggingu fiskeldis hér á landi. Erfðablöndun er mikilvægur þáttur af þeirri heildarmynd en alls ekki sá eini. Árið 2004 var megnið af strandlengju landsins lokað fyrir fiskeldi til þess að passa uppá íslenska laxastofninn og þá sérstaklega gagnvart erfðablöndun. Í ráðherratíð minni var ég spurður útí þá aðgerð af ráðherrum annarra landa, sem fannst mikið til koma hve langt Íslendingar væru að ganga til þess að vernda íslenska laxastofninn.

Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar um erfðablöndun er ágætt fyrsta skref til þess að meta áhrifin af fiskeldi betur, stofnunin nefnir hinsvegar sjálf að óvissa sé mikil um niðurstöður enda verið að beita þessari aðferðafræði í fyrsta sinn. Fram hafa komið greinargóðar athugasemdir um að ekki sé tekið tillit til fyrirbyggjandi aðgerða í skýrslunni. Auðvitað verður að gera þá kröfu að sú þekking og tækni sem sem er til staðar sé nýtt til þess að fyrirbyggja mögulegan skaða og eðlilegt að taka tillit til þess er kemur að ákvörðun um framhald fiskeldis í Djúpinu. Nauðsynlegt er að horfa á heildarmyndina, a.m.k. var það markmið mitt er vinnan var sett af stað. Það þýðir að taka þarf einnig inn samfélagslega- og byggðalega þætti. Ekki er hægt að komast að niðurstöðu án þess að samfélagsleg áhrif séu metin.

Mikilvægt er að Hafrannsóknarstofnun fái ráðrúm til þess að klára sína rannsóknar og þróunarvinnu. Í dag er ekki hægt að leggja þær rannsóknir til grundvallar ákvarðanatöku um framtíð fiskeldis.

Sé horft til þess, mögulegra mótvægisaðgerða og hinna jákvæðu samfélagsáhrifa eru engar forsendur fyrir því að loka Djúpinu.

Þegar ég tók þá ákvörðun að fiskeldissvið Hafrannsóknarstofnunar skyldi staðsett á Ísafirði frá og með árinu 2018 og að eftirlit Matvælastofnunar yrði staðsett á Vestfjörðum og Austfjörðum, var það m.a. til að sýna í  verki áherslu stjórnvalda á mikilvægi atvinnugreinarinnar fyrir landsbyggðina. Hlakka ég til að sjá starfsemi þessara stofnana vaxa og eflast á Vestfjörðum í nálægð við uppbygginguna.

Í stærra samhengi er svo fiskeldi að verða sífellt stærri hluti af fiskneyslu í heiminum og við sem sjávarútvegsþjóð getum ekki setið eftir. Mikil verðmætasköpun fylgir eldinu sem þjóðarbúið og byggðir landsins njóta, viðsnúningurinn á sunnanverðum Vestfjörðum er lifandi dæmi þess.

Við erum í þeirri forréttindastöðu að vera að byggja eldi hér upp nánast frá grunni, þannig getum við lært af mistökum okkar og annarra eldisþjóða og tryggt að gera þetta rétt og vel. Vestfirðingum hefur fækkað um 25% á síðustu 30 árum og þeir eru ekki að biðja um álver eða stóriðju, þeir eru að biðja um sanngirni ríkisvaldsins, að það leggist ekki í veg fyrir umhverfisvæna matvælaframleiðslu með boðum og bönnum heldur finni lausnir á þeim vandamálum sem fylgt geta slíkri starfsemi. Fyrir því mun ég berjast inní umhverfisnefnd þingsins og á þinginu sjálfu.

 

Deila: