„Óhugnanlega mikið af hnúfubak“

Deila:

Um þessar mundir hafa menn miklar áhyggjur af þróun loðnustofnsins. Eftir síðasta rannsóknaleiðangur var ekki talið unnt að gefa út neinn kvóta og því standa fyrirtækin og byggðarlögin sem treysta á loðnuveiðar frammi fyrir mikilli óvissu eins og reyndar oft áður. Vart verður við töluverðar umræður um orsakir þess að loðnustofninn virðist láta undan síga. Helst er rætt um hlýnun og breytingar í hafinu í kjölfar hennar en lítið virðist vera rætt um aðra orsakaþætti. Ýmsir sjómenn hafa þó vakið athygli á mikilli fjölgun hvala og þá einkum hnúfubaks en á undanförnum árum hefur  ótrúlegur hvalafjöldi oft fylgt loðnugöngum og þar hefur hnúfubakurinn verið mjög áberandi. Um þetta er fjallað á heimasíðu Síldarvinnslunnar

Allir hafa heyrt þau viðhorf að alls ekki eigi að veiða hvali og að hvalir séu í reynd í útrýmingarhættu. Því er einnig hiklaust haldið fram að efnahagslega sé skynsamlegra að hafa hvalina til sýnis fyrir túrista en að veiða þá og nýta. Staðreyndin er sú að ákveðnar hvalategundir eru ótvírætt í útrýmingarhættu og má þar nefna steypireyðina og sléttbakinn en mikil fjölgun hefur hins vegar orðið í öðrum tegundum með tilheyrandi áhrifum á fiskistofna.

Hnúfubakur hefur verið friðaður frá árinu 1955 og hafa síðan gilt um hann sömu reglur og gilda um steypireyðina og sléttbakinn. Hnúfubakar voru fyrst taldir hér við land árið 1987 og þá reyndust dýrin vera um 2000. Talningar á árunum 2007 og 2015 benda hins vegar til þess að stofnstærð hnúfubaks sé á bilinu 10.000 – 15.000 dýr og er álitið að hægt hafi á  fjölguninni enda  stofninn náð þeirri stærð sem hann var í áður en hvalveiðitímabilið 1883-1915 hófst. Það er því ljóst að hnúfubaksstofninn hefur 5 – 7 faldast frá því að talningar hófust. Athyglisvert er að þessar staðreyndir virðast hafa haft sáralítil eða engin áhrif á umræðuna um hvalafriðun.

Lengi var því haldið fram að hnúfubakurinn héldi til hlýrri hafsvæða yfir vetrartímann þar sem mökun færi fram. Hins vegar er löngu orðið ljóst að þúsundir hnúfubaka dvelja á hafsvæðinu við Ísland yfir vetrartímann og fylgja þá meðal annars loðnugöngum og eru til mikilla vandræða við loðnuveiðar. Haustið 2015 framkvæmdi Hafrannsóknastofnun hvalatalningu á loðnuslóð norðvestan Íslands og að strönd Grænlands og voru þar taldir sjö þúsund hnúfubakar og fimm þúsund langreyðar. Það er því ekki einungis hnúfubaksstofninn sem hefur náð sér vel á strik á hafsvæðinu við Ísland heldur er langreyðarstofninn einnig orðinn afar öflugur.

Ef við höldum okkur við hnúfubakinn þá hafa ekki farið fram rannsóknir á fæðusamsetningu hans hér við land. Hins vegar eru til rannsóknir frá Kanada sem benda til þess að 60% af fæðu hnúfubaks sé fiskur og fyrir liggur að loðna er sá fiskur sem hann sækir í með mest áberandi hætti hér við land. Hnúfubakurinn er álitinn þurfa að innbyrða 2-2,5 tonn af fæðu á dag og hann er álitinn geta náð a.m.k. 50 ára aldri. Ef við gefum okkur að sjö þúsund hnúfubakar éti hver og einn 1,2 tonn af loðnu í 60 daga á ári þá gera það 504 þúsund tonn í heildina en ef þeir eru að gæða sér á loðnu í helmingi lengri tíma fer magnið yfir eina milljón tonna. Hafa verður í huga að hér er einungis um hnúfubak að ræða en aðrir hvalir vilja einnig gæða sér á loðnunni og þá ekki síst smáhveli sem oft verður vart við í loðnugöngum. Hrefna er til dæmis nokkuð áberandi á loðnumiðunum og eins ber á háhyrningi þó hann sæki meira í síldina.

Eina fræðilega greinin um fiskát hvala við Ísland, sem sá sem þetta skrifar hefur séð, er rituð af Jóhanni Sigurjónssyni og Gísla A. Víkingssyni hvalasérfræðingum Hafrannsóknastofnunar og birtist árið 1997. Niðurstöður hennar eru þær að gera megi ráð fyrir að hvalir éti 1,9 – 2 milljónir tonna af fiski á hafsvæðunum í nágrenni Íslands og hrefnan sé sú hvalategund sem geri mestan skurk í fiskstofnunum. Það hefur mikið breyst í þessum efnum frá 1997 vegna fjölgunar hvala eins og fram hefur komið fyrr í þessari grein. Er ekki kominn tími til að rannsaka ítarlega áhrif fjölgunar hvala á fiskistofnana ? Er ekki full ástæða til að fjalla um áhrif fjölgunar hvala á loðnustofninn til dæmis ? Er ekki nauðsynlegt að fram fari mat á því hvaða áhrif hvalafriðun hefur á fiskistofnana til framtíðar litið ?  Og er ekki brýnt að auka rannsóknir á fæðukeðjunni í hafinu ?

 

Ýmsir sjómenn hafa tjáð áhyggjur sínar af aukinni hvalagengd og þá sérstaklega í tengslum við loðnuveiðar. Heimasíðan hafði samband við þrjá skipstjóra og spurði þá hvort þeir yrðu varir við aukinn fjölda hvala á miðunum. Svör þeirra fara hér á eftir:

Guðmundur Jónsson, skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA:

                Hvölunum virðist sífellt fara fjölgandi. Ég tók við skipstjórn á Vilhelm Þorsteinssyni  árið 2001 og frá þeim tíma hefur hvölum örugglega fjölgað mikið. Síðustu árin sjást hvalir á þeim slóðum sem aldrei sást hvalur á áður. Það eru hvalir úti um allt. Eftir að loðnan fór að halda sig norður af landinu er þó minna um hvali sem fylgja loðnugöngunni. Hvalurinn virðist frekar kjósa að vera í loðnunni norðurfrá. Ég held að sé full ástæða til að hafa áhyggjur af þessari þróun og það er ljóst að aukin hvalagengd getur haft afar neikvæð áhrif á fiskistofna sem eru nýttir og eru efnahagslega mikilvægir.

Sturla þórðarson, skipstjóri á Beiti NK:

                Ég fór fyrst á loðnu árið 1973. Þá sást enginn hvalur. Ég fór síðan í fyrsta sinn á sumarloðnu 1976 og þá sáust tveir eða þrír hvalir á allri vertíðinni. Síðan tók hvölum að fjölga og það var fyrst og fremst hnúfubakurinn sem var í loðnunni. Um eða fyrir 1990 tók hnúfubakurinn að fylgja loðnugöngunni hvert ár og sífellt fjölgaði hvölunum. Það var fyrst á síðustu vertíð að hvalurinn fylgdi ekki göngunni í eins miklum mæli og áður því það var nóg af loðnu fyrir norðan land og þar hélt hann sig. Þessi fjölgun hvala hefur oft skapað mikil vandræði við loðnuveiðarnar. Það er ekkert grín að fá hnúfubak í nótina. Staðreyndin er sú að þegar ég byrjaði til sjós sáust hvalir einungis á hafi úti en nú eru þeir hvarvetna. Mér líst afar illa á blikuna ef þróunin heldur áfram eins og hún hefur verið og áhrif þessarar fjölgunar hvala á loðnustofninn hlýtur að vera hrikaleg.

Geir Zoëga, skipstjóri á Polar Amaroq:

                Hvölum virðist fjölga ár frá ári og þeir eru alls ekki að forðast veiðiskipin; þeir elta okkur hvert sem við förum á loðnumiðunum. Fyrir norðan land á síðustu loðnuvertíð var óhugnanlega mikið af hnúfubak. Þegar horft var yfir hafflötinn var engu líkara en maður væri staddur á miðju hverasvæði því hvalablástur var út um allt. Á loðnuveiðunum er auðvitað reynt að forðast hvalinn þegar kastað er en því miður reynist það oft ekki hægt. Það er algengt að menn fái hval í nótina og ég þekki dæmi um að allt upp í fimm hnúfubakar hafi verið í nótinni samtímis. Allir hljóta að gera sér grein fyrir hvernig veiðarfærið lítur út eftir slík ósköp. Það er full ástæða til að hafa miklar áhyggjur af fjölgun hvalanna, en ég hef líka velt fyrir mér hvort ekki sé mögulegt að merkja 100-150 hnúfubaka og fylgjast með ferðum þeirra í þeim tilgangi að láta þá vísa okkur á loðnuna.

 

Deila: