Kassar eða kör?

Deila:

Umtalsverðar framfarir hafa orðið í þróun á geymsluílátum fyrir heilan ferskan fisk á síðustu áratugum. Karavæðingin sem hélt innreið sína á níunda áratugunum hefur til dæmis létt sjómönnum lífið svo um munar og gert það að verkum að mun skemmri tíma tekur að ganga frá aflanum niður í lest og landa honum. Kerin sem hafa verið hvað algengust eru hins vegar það stór að hætta er á að notkun þeirra hafi neikvæð áhrif á gæði aflans, ef ekki er rétt staðið að verki.

Mikilvægt er því að vandað sé til verka við ísun og röðun í kerin, en vitað er að sá þrýstingur sem myndast á fisk sem er neðst í kerunum hefur áhrif á útlit, los og þyngdartap. Nýlega kom út skýrsla á vegum Matís þar sem velt er upp þeirri spurningu hverjir séu helstu kostir og gallar mismunandi flutningsumbúða fyrir heilan ferskan fisk og er þá sjónum aðallega beint að gámafiski, og hvort val á umbúðum hafi áhrif á gæði og verðmæti aflans.

Í skýrslunni er fjallað um útflutning á gámafiski, virðiskeðju gámafisks, þau ílát sem notuð hafa verið við geymslu og flutning á gámafiski, og þau atriði sem hafa ber í huga við frágang, geymslu og flutning á heilum ferskum fiski. Auk þess er stuttlega fjallað um samband verðs og gæða á afla sem seldur er á uppboðsmörkuðum.

Þá er einnig fjallað um tilraun sem gerð var með að flytja út gámafisk í fjórum mismunandi tegundum íláta, þar sem kanna átti hvort munir væru á gæðum, þyngdartapi og verðmætum aflans. Þessi tilraun gaf hins vegar ekki nægilega áreiðanlegar upplýsingar til að hægt sé að fullyrða eitthvað um hvort tegund flutningsíláta hafi áhrif á áðurnefnda þætti. Sú þróun sem verið hefur í framleiðslu og sölu á kerjum sýnir hins vegar að fleiri og fleiri útgerðir eru að velja minni ker, og ætti það því að vera góð vísbending um að stærð keranna skipti máli. Tilraunin sýndi hins vegar klárlega að það yrði verulegum erfiðleikum háð að ætla að kassavæða íslenska flotann að nýju. Íslenskir sjómenn eru orðnir vanir kerunum og hafa lítinn áhuga á að fara til baka; auk þess sem uppsetning í lestum er í dag hönnuð fyrir ker. Þar að auki er algengt að í afla íslenskra skipa séu fiskar sem passa einfaldlega ekki í þá kassa sem í boði eru, sökum stærðar. Það er hins vegar ekki loku fyrir það skotið að í einstaka tilfellum gætu kassar verið álitlegur kostur við útflutning á heilum ferskum fiski t.d. verðmætari afli eins og sólkola eða „skötuselsskott“.

Verkefnið var styrkt af AVS sjóðnum.

 

Deila: