Makrílvinnsla hafin á ný

Deila:

Beitir NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun með 760 tonn af makríl. Einhver síld er í aflanum en það mun ekki vera mikið. Vinnsla hófst strax og Beitir kom í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar en þar er starfsfólkið endurnært eftir góða Neistaflugshátíð um verslunarmannahelgina sakvæmt frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, segir að makríllinn sé hinn fallegasti. „Við fengum aflann í fimm holum og það voru mest 180 tonn í holi. Þetta er engin mokveiði en samt í góðu lagi. Við byrjuðum að toga út af Reyðarfjarðardýpi og enduðum 80 mílur austnorðaustur af Norðfjarðarhorni. Mér líst bara þokkalega á þetta þó ekki sé um mok að ræða. Það er að koma fiskur á þessi mið og það á eftir að koma fiskur í verulegum mæli,“ sagði Tómas.

Börkur NK og Bjarni Ólafsson AK voru við makrílveiðar í grænlensku lögsögunni yfir verslunarmannahelgina. Afli reyndist vera tregur og er Börkur nú á heimleið með 220 tonn og mun Bjarni Ólafsson sigla í kjölfar hans.

Ljósmynd Hákon Ernuson.

 

 

Deila: