„Ekki tilefni til bjartsýni“

Deila:

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra kom til Ísafjarðar á mánudag og fundaði með sveitar- og bæjarstjórum í Súðavíkhreppi, Ísafjarðarbæ og Bolungarvík. Tilefni fundarins var uppbygging laxeldis í Ísafjarðardjúpi sem Hafrannsóknastofnun hefur lagst gegn. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að fundurinn sé ekki tilefni til sérstakrar bjartsýni.

„En við gerum þó ráð fyrir að ráðherra hlusti á okkar sjónarmið sem eru að áhættumat Hafró getur aldrei verið annað en lítill þáttur þegar heildarhagsmunir sjálfbærni, bæði náttúru og samfélaga, eru skoðaðir. Þá skiptir engu hversu góð eða slæm skýrsla Hafró er,“ segir Gísli Halldór.

Hann óttast að stjórnvöld ætli að taka of mikið tillit til áhættumats Hafró sem leggst gegn laxeldi í Djúpinu vegna neikvæðra áhrifa á þrjár laxveiðiár. „Þá er verið að verið að sleppa því að taka tillit til hagsmuna þeirra 5.000 íbúa sem búa í þessum sveitarfélögum. Annars vegar eru þetta heildarhagsmunir samfélaganna og hins vegar hagsmunir veiðiréttarhafa í þremur ám. En við trúum ekki öðru en að á okkur verði hlustað,“ segir Gísli Halldór.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, leggur áherslu á að það verður aldrei sátt um að loka Djúpinu. „Það er skýr krafa samfélagsins að það verði farið af stað með fiskeldi í Djúpinu með hliðsjón af þeim mótvægisaðgerðum sem er mælt með í skýrslu Hafró. Ég hef fulla trú á að sú leið er bæði skynsamleg og möguleg,“ segir Jón Páll.
Frétt af bb.is

 

 

Deila: