ICES dregur til baka ráðleggingar um síldveiðar

Deila:

Alþjóða hafrannsóknaráðið, ICES, dró í vikunni til baka ráðleggingar sínar um hæfilegan heildarafla af norsk-íslenskri síld á næsta ári. Ástæðan er sögð af tæknilegum ástæðum, en ráðleggingin hafði verið mjög umdeild eftir að hún kom fram. Þetta leiddi til þess að viðræðum þeirra ríka, sem að veiðunum á síldinni standa um skiptingu aflaheimildanna sín á milli, var frestað.

Strandríkin, Ísland, Noregur, Færeyjar og Evrópusambandið hafa þessa viku reynt að ná samkomulagi um heildarafla af kolmunna og síld og skiptingu hans sín á milli. Í þessum viðræðum hafa Rússar verið áheyrnarfulltrúar vegna kolmunnans og Grænlendingar vegna síldarinnar.   Eins og undanfarin ár gengur illa að ná samkomulagi um skiptingu veiðiheimildanna en samkomulag hefur verið um ráðlagðan heildarafla í kolmunna.

ICES telur kolmunnastofninn standa vel og lagði til 3% aukningu á heildarafla í 1,4 milljónir tonna á næsta ári. Hvað síldina varðar hafi ICES lagt til heildarafla á næsta ári upp á 546.472 tonn, en ráðlegging þessa árs var 646.075 tonn.

Viðræðum um þessar veiðar og skiptingu aflans milli aðildarríkjanna verður haldið áfram síðar.

 

 

Deila: