Björgunarskipin orðin gömul

Deila:

Endurnýjun björgunarskipaflota Slysavarnafélagsins Landsbjargar er stærsta verkefnið fram undan. Félagið varð nírætt í gær. Um fjögur þúsund manns eru á vaktinni allt árið um kring, allan sólarhringinn, hjá afmælisbarni dagsins. Fjallað var um afmælið á ruv.is

Fréttastofa RÚV fékk að slást með í för þegar æfð var björgun á sjó. Siglt var út á slöngubátnum Rebba. „Rebbi var gjöf frá Slysavarnardeild kvenna í Vestmannaeyjum fyrir rúmum 20 árum og sýnir sig enn og aftur hve gríðarlega mikilvægs stuðnings við njótum af slíku starfi,“ segir Steinunn Einarsdóttir, kennari við Slysavarnaskóla sjómanna.

Landsbjörg rekur slysavarnarskóla sjómanna og þjálfar sjómenn á fimm ára fresti. „Nú erum við að fara að æfa að taka mann um borð, sem hefur fallið útbyrðis og við ætlum að nota til þess þar til gert net og kippa honum hérna um borð,“ segir Steinunn. „Maðurinn“ sem bjargað var í dag reyndist vera brúða.

„Það eru um 50.000 manns sem eru búnir að fara í gegnum skólann á þessum árum, frá 1985,“ segir Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna. Hópur sjómanna fékk í dag kennslu í endurlífgun. „Árangurinn hefur sýnt sig í fækkun bæði slysa og sérstaklega banaslysa. Frá 2008 hafa verið fjögur ár án banaslysa og síðasta ár var eitt af þeim,“ segir Hilmar.

Um 4000 manns hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg eru á vaktinni allt árið, allan sólarhringinn og að jafnaði eru um 1200 útköll á ári. „Við erum með yfir 90 björgunarsveitir, yfir 30 slysavarnardeildir og á sjötta tug unglingadeilda um allt land,“ segir Þór Þorsteinsson, varaformaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Björgunarsveitarfólk aðstoðar fólk í vondu veðri, ófærð, við leit að fólki og sinnir víðtæku björgunarhlutverki. Slysvarnardeildir hafa það að meginmarkmiði að koma í veg fyrir slys og óhöpp í sínu sveitarfélagi ásamt því að styðja við bakið á björgunarsveitunum, aðstoða þær við fjáröflun og veita þeim margháttaðan stuðning vegna útkalla og aðgerða.

Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnarfélagsins, Landsbjargar, segir að stærsta verkefnið fram undan sé að endurnýja björgunarskipaflota félagins. Þau eru 13 talsins og voru öll keypt notuð. Elsta skipið er um fjörutíu ára. Skipin eru því ekki mjög hraðskreið.

 

Deila: