Enn er lítill fiskafli við Færeyjar

Deila:

Landaður fiskafli í Færeyjum og verðmæti hans hefur verið lágt undanfarin ár og er þá átt við annan fisk en uppsjávartegundir. Betur aflaðist á tímabilinu frá aldamótum til 2007, en þá var meðalafli á ári rúm 125.000 tonn af ferskum fiski. Síðan þá hefur aflinn að meðaltali verið um 75.000 tonn á ári. Á síðasta ári varð aflinn um 73.000 tonn sem er 2.000 tonnum minna en árið áður.

Í þessum tölum er miðað við fisk sem fer í gegnum löndunarkerfið í Færeyjum og er að mestu leyti landað ferskum. Innan þessa ramma er allur afli færeyskra báta af heimamiðum, Flæmska hattinum og á Íslandsmiðum. Eins og áður sagði er uppsjávarfiskur eins og síld, makríll og kolmunni ekki með í þessum tölum.

Færeyjar landanir 2017 magn og virði

Aflaverðmæti fylgir ekki magninu nákvæmlega, þar ræður einnig almennt verð á fiski upp úr sjó og breytingar á því. Aflaverðmætið hefur fallið síðustu árin. Á tímabilinu 2000 til 2007 var verðmæti landaðs afla að meðaltali ríflega 20 milljarðar íslenskra króna. Síðust fimm árin hefur verðmætið að meðaltali verið tæpir 13 milljarðar íslenskra króna. Í fyrr varð það 13,5 milljarðar sem er 7% lægra en árið áður.

Færeryja landanir 2017

Þorskur, ýsa og ufsi

Færeyjar landanir á ufsa, ýsu og þorski 2018

Veiði á ufsa jókst um 2.300 tonn á síðasta ári miðað við árið 2016 og er það aukning um 9%. Þrátt fyrir aflinn hafi aukist dróst verðmæti hans saman um 8%, sem skýrist af lægra fiskverði.

Afli af þorski og ýsu hefur verið með minnsta móti mörg síðustu ár, en betur hefur veiðst af ufsa. En allra síðustu árin hefur ufsaaflinn fallið líka og varð hann aðeins rúm 27.000 tonn í fyrra. Til samanburðar var ufsaaflinn á árunum 2005 til 2010 að meðaltali rúm 53.000 tonn.

Landanir á þorski drógust saman um 12% eða rúm 1.600 tonn í fyrra og verðmæti þorskaflans var 8% minna í fyrra en árið 2016.

Þorskaflinn hefur verið lítill í mörg ár, að meðaltali 10.000 tonn á ári. Aflinn í fyrra, rúm 11.000 tonn, er lítill samanborið við árin 1996 til 2005. Þá var þorskaflinn tvöfalt og þrefalt meiri en hann er nú.

Ýsuaflinn á árinu 2017 var 500 tonnum minni en árið áður. Aflinn í fyrra varð aðeins rúm 3.400 tonn, sem er mjög lítið miðað við meðalafla um 20.000 tonn árin 2001 til 2007.

 

Deila: