„Getur varla verið betra“

Deila:

„Báturinn er að koma mjög vel út. Honum hefur verið breytt aðeins miðað við hina bátana, hann er með stærri kjöl og stærri skrúfu og fleira,“ segir Theodór Ríkharðsson, skipstjóri á nýjum bát Einhamars í Grindavík, Vésteini GK 88. Fyrir á Einhamar tvo báta eftir sömu teikningu og hefur Theodór áður verið á öðrum þeirra, Auði Vésteins. Hinn báturinn ber nafnið Gísli Súrsson.

20180309_162428Theodór hefur því góðan samanburð og er ánægður með útkomuna. Þeir eru búnir að fara um 10 róðra og allt hefur gengið vel, bara svona smá stillingaratriði eins og alltaf með nýja báta. „Svona að smyrja þetta saman í rólegheitum. Við höfum verið að taka frá fimm tonnum upp í 16 tonn í róðri þannig að þetta er farið að ganga mjög vel.“

Báturinn tekur 14 til 15 tonn í lest og síðan er rými fyrir fleiri kör uppi og afturá og allt kælt með krapa. Þeir eru með 18.000 króna um borð og hafa verið að leggja línuna fyrir utan Grindavík. Þeir hafa því verið svona klukkutíma á keyrslu út. Það tekur síðan tvo tíma að leggja línuna og upp undir átta tíma að draga. Því fara 14 til 16 tímar í róðurinn. Einhamar tekur þorsk og ýsu af bátunum til vinnslu og flutnings fersku út, en annað fer á markað.

Theodór segir að þeir vonist til að fá að fara með bátinn á Stöðvarfjörð eftir vertíðina í maí, en kannski verði einhver bátur sendur norður á veiðar. Úthaldið sé venjulega þannig að vertíðin frá því í janúar og fram í maí sé tekin frá Grindavík og síðan sé farið austur og eða norður fyrir land og árið klárað þar. Aflinn sé þá keyrður til Grindavíkur í vinnsluna hjá Einhamri, það er þorskur og ýsa en hitt fari á markað á hverjum stað þar sem landað er.

„Ég er bara mjög sáttur við þetta alls saman, flott áhöfn sem maður er með, allir edrú og hörku karlar. Þetta getur varla verið betra. Báturinn virkilega góður og fyrirtækið Einhamar svo flott. Ég er búinn að vera meira og minna hjá þeim í 12 ár og margir hjá þeim með langan starfsferil. Það segir bara það sem segja þarf um fyrirtækið og aðbúnaðinn fyrir karlana. Fyrirtækið er tildæmis með hús fyrir austan, sem við höfum verið í, þegar róið er þaðan,“ segir Theodór.

Vésteinn GK er 30 tonna línubátur frá Trefjum, Cleopatra 50, með beitningarvél. Báturinn er 15 metrar á lengd og mælist 30 brúttótonn. Vésteinn er systurskip Gísla Súrssonar GK 8 og Auðar Vésteins SU 88 sem útgerðin fékk afgreidda árið 2014.
Bátarnir eru gerðir út á krókaaflamarki. Óskar Sveinsson er útgerðastjóri Einhamars og framkvæmdastjóri er Alda Gylfadóttir. Eigendur fyrirtæksins eru Stefán Kristjánsson og Helena Sandra Antonsdóttir.

Deila: