Góð reynsla af flokkun úrgangs við Norðurgarð

Deila:

Nú eru um tvö ár síðan farið var að flokka úrgang í nýrri flokkunarstöð HB Granda við Norðurgarð. Síðan þá hefur allur úrgangur, sem til fellur vegna starfsemi félagsins, verið flokkaður á öllum starfsstöðvunum í Reykjavík, á Akranesi og á Vopnafirði.

,,Ég held ég geti fullyrt að þessi starfsemi hafi gengið vel,“ segir Gunnar Róbertsson í samtali á heimasíðu HB Granda. Hann er annar tveggja starfsmanna flokkunarstöðvar HB Granda í Reykjavík, en hann hefur starfað við stöðina frá því að hún tók til starfa.

,,Mest af úrganginum kemur frá frystihúsinu við Norðurgarð. Það eru t.d. bylgjupappi, plastfilmur og ýmsir endurvinnanlegir málmar. Skipin eru svo örugglega í öðru sæti hvað magnið varðar en frá þeim erum við að fá venjulegt heimilissorp auk víra og annars sem til fellur við veiðar og vinnslu,“ segir Gunnar en hann segir að allt í allt sé úrgangurinn flokkaður í rúmlega 30 mismunandi flokka.

,,Fínflokkun hefur aukist mjög mikið á starfstímanum. Þótt búið sé að fara í nokkur hreinsunarátök hér á starfssvæðinu og búið sé að sameina verkstæðin undir einu þaki, með tilheyrandi tiltekt sem fylgdi flutningi verkstæðanna, þá fellur alltaf til töluvert magn af járni. Ég gæti trúað því að héðan fari gámur fullur af járnaúrgangi aðra hverja viku að jafnaði. Íslenska gámafélagið sér um að taka við öllum úrgangi og honum er síðan komið áfram í förgun eða endurvinnslu eftir því sem við á,“ segir Gunnar Róbertsson.

Deila: