Sendiherra Japans heimsækir Síldarvinnsluna

Deila:

Yasuhiko Kitagawa sendiherra Japans á Íslandi heimsótti Síldarvinnsluna í Neskaupstað í vikunni. Var hann fræddur um starfsemi fyrirtækisins og sögu þess auk þess sem hann heimsótti fiskiðjuverið og kynnti sér vinnsluna þar.

Japan hefur lengi verið næst stærsta viðskiptaland Síldarvinnslunnar í frystum afurðum og hefur sala á loðnuafurðum þangað verið einkar mikilvæg. Japanskir kaupendur senda árlega fulltrúa sína til Neskaupstaðar til að fylgjast með loðnufrystingu og framleiðslu loðnuhrogna og sterk tengsl hafa myndast á milli þessara fulltrúa og starfsmanna Síldarvinnslunnar. Kitagawa var greint frá hve viðskiptin við Japan væru fyrirtækinu mikilvæg og hve öll samskiptin við japönsku kaupendurna væru farsæl og ánægjuleg.

Kitagawa hefur verið sendiherra á Íslandi í tíu mánuði en hann reiknar með að gegna starfinu í þrjú ár.

Á myndinni eru Yasuhiko Kitagawa sendiherra og Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Smári Geirsson

 

Deila: