Marel skarar framúr
Marel er framúrskarandi fyrirtæki ársins og er í fyrsta sæti lista Creditinfo í ár. Marel hlýtur einnig verðlaun fyrir framúrskarandi fyrirtæki í samfélagsábyrgð. Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í Hörpu í Reykjavík þann 23. október 2019. Sigurður Ólason, framkvæmdastjóri fiskiðnaðar Marel, steig á svið ásamt fjölbreyttum hópi starfsmanna og tók við verðlaunum fyrir hönd Marel.
Árangur í þágu samfélagsins og umhverfis næst með samstarfi
„Það er okkur sönn ánægja að taka á móti þessum hvatningarverðlaunum fyrir hönd Marel og við gerum það með miklu stolti og gleði í hjarta,“ sagði Sigurður við tilefnið. „Marel er í dag leiðandi á heimsvísu á hátækni framleiðslukerfum og hugbúnaði fyrir matvælavinnslu og frá því fyrirtækið var stofnað fyrir um fjórum áratugum höfum við þróað og framleitt lausnir sem hafa aukið nýtingu, bætt hráefnismeðhöndlun og tryggt öryggi í matvælaframleiðslu. Þann árangur er ekki einungis hægt að eigna metnaðarfullum starfsmönnum Marel, því við höfum einnig notið stuðnings viðskiptavina okkar sem hafa verið tilbúnir að taka þátt í framsæknum verkefnum með okkur og þannig höfum með samstarfi náð gríðarlegum árangri í þágu umhverfisins og samfélagsins.“
Sigurður þakkaði einnig stuðning hluthafa, ýmsra fyrirtækja, rannsóknastofnana- og menntakerfisins en allt eru það mikilvægir bakhjarlar sem hafa með einum eða öðrum hætti stutt starfssemi og velgengni Marel.
Leiðandi staða er tækifæri til að umbylta matvælavinnslu
„Allt frá upphafi hefur sjálfbær þróun verið kjarni Marel og við framfylgjum þeirri stefnu í allri starfsemi og verkefnum,“ segir Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Marel á Íslandi. „Umbylting matvælavinnslu á heimsvísu verður að veruleika með samstarfi þar sem okkar viðskiptavinir, starfsmenn og aðrir hagsmunaaðila stilla saman strengi sína. Það er mikil matarsóun í virðiskeðjunni á heimsvísu, um 1,3 milljarður tonna á ári og þar sjáum við tækifæri til áframhaldandi nýsköpunar og vöruþróunar til þess að nýta verðmætar auðlindir við að fæða ört stækkandi heim. Við erum þakklát fyrir að tekið sé eftir því sem við gerum og hlökkum til þess að halda áfram á sömu braut.“
listi framúrskarandi fyrirtækja í 10 ár
Árlega vinnur Creditinfo greiningu á rekstri íslenskra fyrirtækja og veitir Framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningu fyrir árangur. Listinn sem var kynntur í Hörpu þetta ár er unninn í tíunda sinn og í ár eru 874 fyrirtæki á listanum eða 2% allra skráðra fyrirtækja á Íslandi. Fyrirtækin raðast á listann eftir ársniðurstöðu síðasta rekstrarárs. Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á því að framúrskarandi rekstur fyrirtækja felur í sér að fyrirtæki hámarki jákvæð áhrif sín á umhverfið og samfélagið sem þau starfa í ekki síður en fjárhagslegan árangur sinn.
Tímamótavinnslur og samningar
Nýverið tilkynnti Marel um opnun á kjúklingavinnslu Lincoln Premium Poultry sem framleiðir hágæða kjúkling fyrir Costco í Bandaríkjunum. Um er að ræða tímamótaverkefni sem brýtur blað í kjúklingaiðnaði í Bandaríkjunum og setur ný viðmið varðandi afköst og gæði. Í sömu viku undirritaði Brim samning við Marel um kaup og uppsetningu á hátækni vinnslubúnaði og hugbúnaði fyrir hvítfiskvinnslu sem munu gera aðstöðu félagsins á Norðurgarði í Reykjavík að fullkomnustu vinnslustöð fyrir bolfisk á heimsvísu.
Verkefnin eru aðeins tvö dæmi um hvernig starfsmenn Marel sem telja yfir 6.000 í yfir 30 löndum vinna í samstarfi við viðskiptavini við að þróa og framleiða lausnir sem umbylta matvælaframleiðslu á heimsvísu með aukna nýtingu og rekjanleika að leiðarljósi. Þannig má einnig ná fram meiri hagkvæmni, matvælaöryggi og sjálfbærni.