Makrílveiðar farnar að tregast

Deila:

Á vef Síldarvinnslunnar kemur fram að skipaflota félagsins gangi erfiðlega að finna makríl. Veiðin hefur að sögn verið sveiflukennd að undanförnu en að skipin séu að leita að makríl suðaustur af landinu. Eins og fram hefur komið eru Síldarvinnslu- og Samherjaskipin í veiðisamstarfi og hafa landað yfir 20 þúsund tonnum af makríl það sem af er vertíðinni.

Fram kemur á vef Síldarvinnslunnar að makríllinn sé ýmist hausaður eða flakaðar í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.

Í Norðfjarðarhöfn var mikið um að vera í gær. Verið var að landa úr frystitogaranum Blængi NK sem kom með fullfermi að landi á mánudag. Einnig var verið að landa úr Berki, tæplega 700 tonnum og Hákon EA var á leiðinni til hafnar með makrílafla. Þá var verið að skipa út 1.400 tonnum af frystum makríl og loðnuhrognum í flutningaskip.

Deila: