Ármann Ármannsson látinn
Ármann Ármannsson, skipstjóri og útgerðarmaður, lést í faðmi fjölskyldu sinnar þann 16. apríl sl., 68 ára að aldri.
Ármann var fæddur 2. mars. 1949 í Reykjavík og voru foreldrar hans Ármann Friðriksson, skipstjóri og útgerðarmaður frá Vestmannaeyjum, og Ragnhildur Eyjólfsdóttir húsmóðir. Ármann byrjaði snemma til sjós í róðrum á trillum út frá Sandgerði. Hann fór síðan sem hálfdrættingur með föður sínum á Helgu RE-49 þegar hann var 14 ára gamall. Ármann stundaði nám við Stýrimannaskóla Íslands og tók skipstjórnarpróf, 1. stig árið 1969 og 2. stig árið 1972. Árin 1969-1981 var Ármann stýrimaður og skipstjóri á hinum ýmsu skipum á vegum útgerðarfélagsins Ingimundar hf. í Reykjavík sem faðir hans stofnaði árið 1947.
Árið 1981 kom Ármann alfarið í land og tók að reka útgerð og fiskvinnslu Ingimundar hf. með föður sínum. Ráku þeir feðgar saman rækjuverksmiðju hér í Reykjavík í Súðarvogi 6 og svo síðar rækjuvinnslu á Siglufirði. Mörg fengsæl skip hafa verið smíðuð í Noregi, Kína og Taivan og gerð út af Ármanni á vegum Ingimundar hf. Þau skip hafa nær undantekningarlaust borið nafnið Helga RE. Ármann var virkur í rekstri Ingimundar hf. og margvíslegum fjárfestingum félagsins allt til dauðadags í samstarfi við son sinn, Ármann Fr.
Ármann var mikill áhugamaður um hestamennsku, ötull hestamaður og ræktandi og vildi framgang hestamennsku sem mestan. Árið 2006 byggði hann ásamt eiginkonu sinni, Láru Friðbertsdóttur, á jörðinni Mið-Fossum í Borgarbyggð, mikla hestamiðstöð. Hestamiðstöðin á Mið-Fossum hefur verið notuð við kennslu hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri frá árinu 2006. Einnig til keppnishalds og ýmissa viðburða.
Ármann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum og sat í stjórn margra lögaðila og félaga um ævina, m.a. Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og Útvegsmannafélags Reykjavíkur. Hann var félagi í stúkunni Þorsteini í Oddfellowreglunni.
Eftirlifandi eiginkona Ármanns er Lára Friðbertsdóttir. Uppkomin börn þeirra eru Ragnhildur Íris, Esther Ósk og Ármann Fr.
Ármann á einnig dótturina Ellý Ingunni. Barnabörnin eru 11.