Kjartan Páll: Ráðherra kannist ekki við loforð sín

Deila:

„Svandís hafði allan veturinn til þess að hugsa þetta og finna lausn en ákvað að gera það ekki. Hún getur ekki falið sig á bak við lagaheimildir. Þetta var pólitískt val.” Þetta segir Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands í grein í Bændablaðinu. Í greininni fer Kjartan Páll yfir mótmælin 15. júlí síðastliðin og þau skilaboð sem strandveiðimenn komu þar á framfæri. „Við vorum að mótmæla þeirri vanvirðingu og því skeytingarleysi sem okkur hefur verið sýnt. Við erum vön óvissu, enda háð duttlungum veðurfars, vélabilana og fiskgengdar. En stærsti óvissuþátturinn eru þó stjórnvöld og í ár náði þessi sveiflukenndi ruglingur sem einkennir ákvarðanatöku stjórnvalda hæstu hæðum.”

Hann bendir á að fyrirkomulag veiðanna í ár hafi verið óráðið í báða enda. Vertíðin hafi hafist á óvissu um framgang frumvarps ráðherra um svæðaskiptingu aflaheimilda. Veiðin hafi þannig byrjað í óvissu og endað í óvissu. Ráðherra hafi borið því við að ekki væri lagaheimild til að bæta við pottinn. „Hvers vegna hefur verið hægt að auka heimildir öll undanfarin ár en ekki þetta árið?” spyr Kjartan.

Svikin loforð ráðherra sem einkenni ráðherra og VG í garð strandveiðimanna séu sárust. Svandís hafi lofað strandveiðimönnum að strandveiðum yrði þokað í rétta átt. „Hennar flokkur var þá nýbúinn að heyja kosningabaráttu þar sem lofað var að „aflaheimildir í 5,3% kerfinu verði auknar í hóflegum áföngum með það sem endamarkmið að 8-10% veiðiheimilda verði til ráðstöfunar í slíkum tilgangi“ og að festa „þarf strandveiðar enn betur í sessi“. Þegar hennar fyrsta strandveiðivertíð, 2022, endaði með ótímabærri stöðvun 21. júlí, óskaði Strandveiðifélagið eftir fundi. Við áttum í kjölfarið góðan fund með ráðherra (þó hún hafi séð til þess að draga hann svo langt fram eftir ágústmánuði að ljóst var að þeirri vertíð yrði ekki bjargað) og gengum við hæfilega bjartsýn af þeim fundi. Svandís sýndi okkur mikinn skilning og virtist bæði skilja sjónarhorn okkar og hafa samúð með því. Fundinum síðasta sumar lauk með loforði um samvinnu, að ráðuneytið og strandveiðiflotinn myndi vinna að bættu kerfi í sameiningu. En svo heyrist ekki múkk frá ráðuneytinu og nú virðist ráðherra ekki kannast við nein þessara loforða,“ segir hann.

Kjartan segist trúa því að Svandís vilji innst inni auka veg strandveiða. Það sé þó furðulegt að ráðherra Vinstri grænna skuli taka grjótharða afstöðu gegn lítilmagnanum sem stundi umhverfisvænar veiðar. Eitthvað hljóti að hafa hrætt ráðherra sem standi fyrir systu vertíð strandveiða frá upphafi veiðanna. „Það kæmi mér ekki á óvart að sá orðrómur sé á rökum reistur að handhafar kvóta hafi herjað bæði á matvælaráðuneytið og aðra stjórnarflokka og hótað öllu illu ef bætt yrði í pottinn. Hvað sem því líður þá hefur ráðherra enn sem komið er ekki sýnt það í verki að hún sé strandveiðiráðherra, enda erum við hætt að líta á hana sem slíka. Okkur trillukörlum og -konum líður eins og óhreinu börnunum hennar Evu. Atvinnugrein sem ætti að vera í algjörum forgangi er alltaf látin mæta afgangi og fær í besta falli nokkrar mylsnur sem detta af gnægtarborðum sægreifanna,” skrifar og bætir við að strandveiðar standi fremst á meðal jafningja þegar komi að umhverfisvernd, byggðasjónarmiðum, gæðum og verðmæti afla – og rétti almennings til atvinnufrelsis og vals á búsetu.

Kjartan Páll óskar á ný eftir samstarfi við ráðherra og hennar ráðuneyti, í grein sinni. Finna þurfi farsæla lausn á vanda strandveiðiflotans til frambúðar. „Hún getur fallið í gleymskunnar dá sem enn einn ráðherrann sem lúffaði fyrir ofríki stórútgerðarinnar. Eins gæti hennar verið minnst í sögubókum sem þeim ráðherra sem vann samkvæmt vilja þjóðarinnar og hafði mannréttindi og náttúruvernd að leiðarljósi. Hennar er valið.”

Deila: