Síldarkvóti Færeyja verður 88.350 tonn
Høgni Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja hefur gefið út leyfilegan heildarafla færeyskra skipa á norsk-íslenskri síld á þessu ári. Kvótinn verður alls 88.350 tonn.
Þrátt fyrir að ekki hafi náðst samkomulag milli viðkomandi landa, Íslands, Noregs, Færeyja og ESB, um skiptingu heildarafla af síldinni sín á milli, náðist samkomulag um að heildaraflinn yrði ekki meiri en 435.000 tonn á árinu.
Hlutur Færeyja nú er heldur meiri nú en í fyrra og er það gert til að jafna kröfur frá öðrum löndum.
Auk þessa hefur ráðherrann ákveðið kvóta Færeyja á kolmunna upp í 493.081 tonn, en aðildarlöndin náðu samkomulagi um heildarafla úr stofninum upp á 1.387.872 tonn fyrir þetta ár.
Reglugerðir um veiðarnar verða gefnar út á næstunni.