Að fara nýjar leiðir

Deila:

Í nýútkomnu blaði Athygli, Sóknarfæri, frumkvæði og fagmennska í sjávarútvegi, meðal annars að finna viðtal við sjávarútvegsráðherrann, Kristján Þór Júlíusson. Hann segir að veiðigjaldakerfinu verði að breyta.

Þá er fjallað um fertugsafmæli rafeindavoganna, sem leiddu til byltingar í vinnslu á íslenskum sjávarafurðum, Nýja frystitogara DFFU í Þýskalandi, laxeldi sem lyftistöng á Djúpavogi, fjölbreytta starfsemi Skinneyjar-Þinganess, íslenska hátækni í nýju fiskiðjuveri á Kúrileyjum, rafdrifin fiskiskip og margt fleira.

Jóhann Ólafur Halldórsson ritar eftirfarandi inngang að blaðinu:

Jóhann Ólafur Halldórsson.

Jóhann Ólafur Halldórsson.

„Titill þessa blaðs, Sóknarfæri í sjávarútvegi, er mjög lýsandi fyrir eitt helsta einkenni greinarinnar, það að á hverjum tíma eru alltaf uppi tækifæri til að ná árangri, gera betur, fara nýjar leiðir í veiðum, vinnslu, rannsóknum og þannig mætti áfram telja. Það er þetta sem skýrir hvers vegna svo mikil gróska, nýsköpun og þróun er í sjávarútvegi á Íslandi en vissulega þarf þá sóknarvilji að vera almennt til staðar. Sem hann vissulega er. Nærtækast er að benda á nýjar fjárfestingar í fiskiskipum þar sem ekki er bara brugðið út af hefðbundnum leiðum í ytri hönnun skipa heldur eru nýjungar í aflameðferð sem ekki hafa áður sést. Sama á við um tækniþróun í landvinnslu. Og óhætt er líka að nefna þá athygli sem á íslenskum sjávarútvegi er einnig úti í hinum stóra heimi fyrir fiskveiðistjórnun okkar og ástæða líka til að nefna hið umdeilda veiðigjaldakerfi, hvað svo sem líður deilunum um fyrirkomulag þeirrar skattheimtu og fjárhæðir.

Illa væri komið fyrir okkur ef við nýttum ekki sóknarfærin þegar þau gefast. Í þessu samhengi er líka vert að benda á hvernig hugsun í greininni hefur gjörbreyst á síðustu áratugum. Fyrir ótrúlega stuttu síðan þótti flottast að heyra af drekkhlöðnum skipum af afla, landburði af fiski, svo fullum trollpokum að varla var hægt að draga þá inn á trolldekkið á skipunum. Enginn spurði um gæði afla og verðmætasköpun í þessu samhengi. Myndir eins og þessar sjást ekki lengur, enda tíðkast þetta ekki. Mönnum hefur því betur lærst að sóknarfærin til meiri árangurs liggja í verðmætasköpuninni og til að ná sem lengst í henni er tæknin t.d. orðin slík að vélbúnaður getur lagað sig að stærð hvers fisks til að flökun og skurður skili sem allra bestri nýtingu. Þetta og margt annað sem er orðið hversdagslegur hlutur í sjávarútvegi í dag hefði þótt hljóma eins og geimvísindi fyrir fáum áratugum.

En vissulega er líka hin hliðin á sjávarútveginum – þau vandamál sem uppi eru hverju sinni. Það er tekist á um veiðigjöldin nú um stundir og bent með rökum á beinar afleiðingar þeirra með fækkun útgerða og samþjöppun. Um kerfi byggðakvóta, strandveiða og raunar flesta þætti fiskveiðistjórnunarinnar eru alltaf skiptar skoðanir. Framsal kvóta er enn eitt deiluefnið og það talið til marks um samþjöppun og undirrót hnignunar einstakra byggðarlaga. Gengisþróun og afurðaverð eru miklir áhrifavaldar og síðast en ekki síst eru það fiskistofnarnir með sínum lítt fyrirséðu sveiflum, sér í lagi hinn dyntótti loðnustofn.

Það mætti kannski segja um sjávarútveginn og umræðuna um hann að valið standi á milli þess hvort við horfum á glasið sem hálffullt eða hálftómt. Í þessari útgáfu, líkt og fyrr, kjósum við að horfa á tækifærin – sóknarfærin. Því nóg er af þeim í íslenskum sjávarútvegi, þrátt fyrir allt.“

Blaðinu var dreift með morgunblaðinu fyrir helgi og lá það auk þess víða frammi á aðgengilegum stöðum.

Blaðið má lesa á eftirfarandi slóð: https://issuu.com/athygliehf/docs/soknarfaeri_sjavarutv_1tbl_feb_2018?e=2305372/58404210

Deila: