Illa gengur að ná ufsanum
Á sl. þremur fiskveiðiárum hafa veiðar á ufsa vikið langt frá útgefnum veiðiheimildum. Um 35 þúsund tonn vantar upp á fulla nýtingu. Samanlagðar veiðiheimildir fiskveiðiárin 2014/2015, 2015/2016 og 2016/2017 voru rúmlega 178 þúsund tonn á móti 144 þúsund tonna afla samkvæmt færslu á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.
„Á yfirstandandi fiskveiðiári virðist veiðin ganga örlítið betur. Af 67 þúsund tonna heimildum er búið að veiða 31%, en á sama tíma í fyrra hafði aðeins verið búið að landa fimmtungi útgefinna heimilda. Þess ber þó að geta að þá stöðvaði verkfall allar veiðar sem gerir samanburð erfiðan.
Að sögn sjómanna sem rætt hefur verið virðist ufsinn brellnari en oft áður. Það skýtur þó skökku við þar sem mælingar Hafrannsóknastofnunar sýna að veiðistofninn hefur ekki verið stærri síðan 1991 og hrygningarstofn í sögulegu hámarki á því tímabili sem tölur ná til, ársins 1980.
En það er meira sem kemur til. Ufsinn hefur hrunið í verði. Verð á fiskmörkuðum á fyrsta þriðjungi fiskveiðiársins innan við helmingur sem það var á sama tíma tveimur árum fyrr.
Hér er þó enn einn þáttur ótalinn sem letur menn til að sækja í ufsa. Veiðigjaldið. Miðað við framangreint verð hefur það þrefaldast á þessum tíma, farið úr 4,9% af aflaverðmæti í 14,8%.“