Fullbúið uppsjávarskip eftir breytingarnar

Deila:

Á dögunum lauk hjá Slippnum Akureyri ehf. viðamiklum breytingum á uppsjávarskipinu Jóni Kjartanssyni SU 111 sem er í eigu Eskju hf. á Eskifirði. Þær fólust fyrst og fremst í að koma fyrir búnaði í skipinu fyrir nótaveiðar en þetta er eitt af stærstu breytingaverkefnum á uppsjávarskipum sem unnin hafa verið hjá Slippnum Akureyri síðustu ár. Fyrirtækið hannaði breytingarnar og annaðist alla smíða- og uppsetningarvinnu.

„Verkefnið er mjög umfangsmikið og til marks um það má nefna að í þessum breytingum hafa bæst við um 100 tonn af stáli og búnaði í skipið. Jón Kjartansson ber þetta engu að síður mjög vel, enda tæplega 71 metra langt skip og 14,5 metra breitt. Skipið verður ennþá öflugra eftir breytingarnar,“ segir Gunnar Tryggvason, skipaverkfræðingur og verkefnastjóri hjá Slippnum Akureyri en hann teiknaði breytingarnar og stýrði verkinu.

Klárir í loðnuvertíðina

Eskja hf. fékk Jón Kjartansson SU afhentan síðasta sumar en skipið hét áður Charisma og var gert út frá Skotlandi. Það var byggt árið 2003 í Noregi og var búið til veiða með flottrolli. Í lest rúmar skipið um 2.200 tonna afla og er það búið RSW-sjókælikerfi og löndunarkerfi. Skipstjóri er Grétar Rögnvarsson og segir hann að aðal markmið breytinganna sé að geta veitt loðnu á grunnunum þegar kemur fram á hrognatímann. „Sú er hugmyndin að baki breytingunum og mér líst vel á skipið, en ég reikna með að við byrjum í loðnunni. Í fyrra var allur aflinn á loðnuvertíðinni veiddur í nót en það skýrðist líka af því hversu seint við byrjuðum vegna sjómannaverkfallsins. En með þessum breytingum erum við fullbúnir í loðnuvertíðina sem framundan er,“ segir Grétar.

Gunnar Tryggvason segir breytingarnar hafa verið fjölþættar og yfirgripsmiklar. Segja má að bæst hafi við annað þilfar og þar var m.a. komið fyrir öflugum snurpuvindum. Þá var smíðaður nótakassi, snurpugálgar, korkaleggjara var komið fyrir sem og nótaleggjara, milliblökk, nótaröri með vökvastýrðri hliðarfærslu, hringanál, stærstu gerð af kraftblökk og öðrum vindum sem nótabúnaðinn snertir. Vindukerfinu er stjórnað með snertiskjám og spurpu-, korka- og pokabandsvindum er stjórnað með þráðlausri fjarstýringu. Í tengslum við þessar breytingar var vökvakerfi skipsins tvöfaldað, breytingar gerðar á vindum fyrir flottrollsveiðar og lagfæringar gerðar á rafkerfi og fleiru. „Lykillinn að því að svona breyting sé framkvæmanleg er að skipið sé stórt og öflugt, sem þannig er í þessu tilfelli. Þó skipið sé smíðað árið 2003 þá er það lítið notað og vel með farið þannig að með þessari viðbót fyrir nótina er Jón Kjartansson SU orðið uppsjávarskip eins og þau gerast best í dag,“ segir Gunnar.

Ljósmynd Þorgeir Baldursson

Frá þessu er sagt í blaðinu Sóknarfæri í sjávarútvegi, sem Athygli hf. gefur út. Blaðinu var dreift með Morgunblaðinu í síðustu viku, en það má lesa á slóðinni https://issuu.com/athygliehf/docs/soknarfaeri_sjavarutv_1tbl_feb_2018?e=2305372/58404210

 

Deila: