„Rangfærslur Seðlabankans ætla engan endi að taka”

Deila:

„Samkvæmt framansögðu hefur Seðlabankinn frá árinu 2012 stundað það að leggja rangfærðar upplýsingar fyrir dómstóla í því skyni að hafa áhrif á niðurstöðu. Eru þá ótaldar rangfærslur til sérstaks saksóknar. Ekki er hægt að líta á slíka ítrekaða hegðun sem óafvitandi mistök, hvorki varðandi húsleitarbeiðnina, rangfærslur til Hæstaréttar eða í dómi nú. Þess vegna mun Samherji hf. bregðast við með viðeigandi hætti.“

Þorsteinn Már Baldvinsson

Svo segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf. Meðal annars í bréfi til bankaráðs Seðlabanka Íslands. Þorsteinn rekur í bréfinu rangfærslur bankans og lögfræðings hans og átelur bankaráð bankans fyrir sjá ekki til þess að leiðréttingum sé komið á framfæri:

„Ítrekað hefur verið bent á tilvik sem þessi án þess að bankaráðið sjái til þess að leiðréttingum sé komið á framfæri. Fyrir rúmum þremur mánuðum sendi undanritaður bréf til bankaráðs það sem Seðlabankanum var boðið að ræða um endanlegar lyktir þessa máls. Þrátt fyrir tilmæli bankaráðs um að bankastjóri myndi svara erindinu hafa engin viðbrögð borist. Minna skal á að bankastjóri hefur ítrekað hundsað eindreginn vilja bankaráðs að stjá sig ekki í fjölmiðlum. Svo virðist því sem bankaráð ætli að láta allt yfir sig ganga. Sést það einnig í skýrslu Lagastofnunar að forstöðumaður eftirlitsdeildar gjaldeyriseftirlitsins bar við annir og hundsaði vilja bankaráðs að aðstoða Lagastofnun við rannsókn sína fyrir hönd ráðsins, hefur verið verðlaunaður með stöðuhækkun og gegnir nú stöðu framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins.“

Og ennfremur skrifar Þorsteinn: „Til viðbótar við framangreint hefur bankaráðið lýst því yfir opinberlega að ekki sé ástæða til að bregðast við þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslu Lagastofnunar. Það er því borin von að bankaráðið, fyrir hönd bankans, muni bregðast við á einhvern hátt, t.a.m. biðja þá fjölmörgu einstaklinga og lögaðila sem hafðir hafa verið fyrir rangri sök og jafnvel verið kærðir til lögreglu afsökunar.“

Bréfið í heild má sjá á heimasíðu Samherja: http://www.samherji.is/is/frettir/fyrirsogn

 

Deila: