Sannkölluð haugabræla

Deila:

,,Þetta er búið að vera upp og ofan hjá okkur í þessum túr en segja má að þegar veðrið er skaplegt þá sé aflinn góður. Núna er vitlaust veður, sannkölluð haugabræla, en við dólum hér í Skerjadjúpinu og vonandi náum við einu holi áður en haldið verður til hafnar,“ sagði Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Akurey AK, er samband náðist við hann laf heimasíðu HB Granda laust upp úr hádeginu í gær.

Akurey er væntanleg  til Reykjavíkur nú í morgun, en að sögn skipstjórans er um sex til sjö tíma sigling þangað úr Skerjadjúpinu. Er rætt var við Eirík var aflinn orðinn um 120 tonn af blönduðum afla en ufsa vantaði alveg í þann skammt.

,,Það var rólegt hjá okkur fyrsta daginn en síðan þá hefur aflinn verið ágætur. Við höfum lagt áherslu á að veiða ufsa en sá fiskur hefur varla sést í túrnum. Ufsaveiðin hefur verið ágæt, heilt yfir, en  hún er ákaflega blettótt. Ef maður er ekki á réttu róli þá er ufsaaflinn lítill en svo koma tímar þegar maður hittir á ufsann dag eftir dag,“ segir Eiríkur en hann segir að ufsinn sé ekki einn um að koma mönnum á óvart.

,,Við þurfum líka að veiða þorsk og það lá beinast við að fara í Jökuldjúpið þar sem hefur verið mokveiði í margar vikur. Þar var  engan þorsk að fá þegar við komum á svæðið. Norðlendingarnir hafa legið á þessu svæði og fengið góðan afla. Togarar frá Sauðárkróki hafa t.a.m. gert út frá Grundarfirði og Eyfirðingarnir hafa sömuleiðis verið drjúgir. Togarar frá Vestmannaeyjum koma reglulega en ég hef ekki orðið var við Austfjarðatogarana hér á suðvesturmiðum.“

Eiríkur segir að þrátt fyrir að Jökuldjúpið hafi brugðist að þessu sinni þá sé þorsk víðar að finna. Því sé þó ekki að heilsa á hinu fornfræga hrygningarsvæði á Selvogsbankanum. Þar sé nú lítið um þorsk.

Gullkarfaveiðar hafa jafnan verið ríkur þáttur í veiðum ísfisktogara HB Granda. Að sögn Eiríks hafa þær veiðar verið í aukahlutverki hjá áhöfn Akureyjar í veiðiferðinni.

,,Við tókum þó 40 mínútna karfahol í Skerjadjúpinu og fengum um 15 tonn en annars hefur gullkarfinn verið meðafli hjá okkur,“ segir Eiríkur Jónsson.

 

 

Deila: