Sólberg ÓF með mestan kvóta
Sólberg ÓF fær mesta úthlutun nú í upphafi nýs fiskveiðiárs, ígildi 10.354 tonna af þorski. Af fyrirtækjum fær Brim (áður HB Grandi) mestu úthlutað til sinna skipa eða 9,4% af heildinni, næst kemur Samherji með 6,6% og þá FISK Seafood með 6,0% og Þorbjörn hf. með 5,5%. Kvótahæstu hafnirnar eru nú Vestmannaeyjar með 11,4% úthlutunarinnar samanborið við 10,6% í fyrra. Næstmest fer nú til Grindavíkur, eða 10,9% af heildinni samanborið við 11,0% á fyrra ári. Skip með heimahöfn í Reykjavík fá úthlutað 10,6% af heildinni samanborið við 11,6% í fyrra. Reykjavík fellur nú úr fyrsta sætinu í það þriðja.
12.000 tonna samdráttur
Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2019/2020. Úthlutunin fer fram á grundvelli aflahlutdeilda að teknu tilliti til 5,3% frádráttar fyrir jöfnunaraðgerðir með sama hætti og á fyrra fiskveiðiári. Að þessu sinni er úthlutað 372 þúsund tonnum í þorskígildum talið samanborið við um 384 þúsund þorskígildistonn í fyrra, reiknað í þorskígildum fiskveiðiársins sem nú gengur í garð. Samdráttur á milli ára samsvarar því um 12 þúsund þorskígildistonnum.
Úthlutun í þorski er rúm 215 þúsund tonn og eykst um 7 þúsund tonn frá fyrra ári. Ýsukvótinn er rúm 32 þúsund tonn og dregst saman um 13 þúsund tonn. Aukning er í ufsakvótanum er eitt þúsund tonn en um eitt þúsund tonna samdráttur í grálúðu og úthafsrækju. Nokkur samdráttur er í ýmsum af smærri kvótategundunum. Nefna má að helmings samdráttur er í hlýra og skötusel og einnig er verulegur samdráttur í úthlutun á tegundum eins og blálöngu og litla karfa. Úthlutað aflamark er alls um 440 þúsund tonn í hinum ýmsu kvótategundum sem er um 11 þúsund tonnum minna en á fyrra ári.
Vakin er athygli á að síðar á árinu verður úthlutað aflamarki í deilistofnum og ekki er óalgengt að aukið sé við aflamark í uppsjávarfiski. Benda má sérstaklega á að engri loðnu var úthlutað að þessu sinni. Ætla má að heildaraflamark einstakra skipa og hafna og innbyrðishlutfall þeirra breytist í kjölfar frekari úthlutana þegar líður á fiskveiðiárið.
466 skip fá úthlutun
Alls fá 466 skip úthlutað aflamarki að þessu sinni samanborið við 540 á fyrra fiskveiðiári. Skýringin á þessari miklu fækkun liggur í því að fjöldi skipa fékk úthlutað hlutdeildum í hlýra á grundvelli veiðireynslu í fyrra. Það hafði í för með sér mikla dreifingu á veiðiheimildum í litlum stofni á meðal skipa með engar aðrar hlutdeildir. Síðan þá hafa hlutdeildirnar í hlýra safnast á færri hendur. Sé fjöldi skipa með úthlutað aflamark nú borinn saman við fjölda slíkra skipa fyrir tveimur árum þá er fækkunin 23 skip og það er í samræmi við þá þróun sem verið hefur í mörg undanfarin ár. Það skip sem fær úthlutað mestu aflamarki er Sólberg ÓF 1, en það fær 10.354 þorskígildistonn eða 2,8% af úthlutuðum þorskígildum.
Úthlutun eftir fyrirtækjum
Fimmtíu stærstu fyrirtækin fá úthlutað sem nemur um 89.2% af því aflamarki sem úthlutað er og er það svipað hlutfall og í fyrra. Alls fá 336 fyrirtæki eða lögaðilar úthlutað nú eða 80 færri en í fyrra þeagar varð mikil fjöldun vegna kvótasetningar á hlýra. Sé litið til þeirra sem eru með mesta úthlutun fær Brim (áður HB Grandi) mestu úthlutað til sinna skipa eða 9,4% af heildinni, næst kemur Samherji með 6,6% og þá FISK Seafood með 6,0% og Þorbjörn hf. með 5,5%.
Úthlutun eftir heimahöfnum
Þrjár heimahafnir skera sig úr eins og undanfarin ár með að skip sem þeim tilheyra fá töluvert miklu meira úthlutað í þorskígildum talið en þær hafnir sem á eftir koma. Mest fer til skipa með heimahöfn í Vestmannaeyjum en þau ráða fyrir 11,4% úthlutunarinnar samanborið við 10,6% í fyrra. Næstmest fer nú til Grindavíkur, eða 10,9% af heildinni samanborið við 11,0% á fyrra ári. Skip með heimahöfn í Reykjavík fá úthlutað 10,6% af heildinni samanborið við 11,6% í fyrra. Hér hafa þau tíðindi gerst að Reykjavík, sem hefur til fjölda ára verið sú höfn landsins þar sem mestu aflamarki er úthlutað til, fellur úr fyrsta sæti í það þriðja.
Hlutfall sem fer til skipa hjá hverri höfn fyrir sig breytist í flestum tilvikum eitthvað og má rekja það til breytinga á þorskígildisstuðlum sem og tilfærslu aflahlutdeilda á milli skipa með ólíka heimahöfn. Vísað er til yfirlitstöflunnar sem tengill er í hér að neðan.
Úthlutun eftir útgerðarflokkum
Bátar með krókaaflamark eru nú 285 og fækkar um 31. Skipum í aflamarkskerfinu fækkar um 43 á milli ára og eru nú 181. Togurum fækkar um 5 en þeim hafði fjölgað í fyrra um 3 eftir árvissa fækkun undanfarið. Togararnir eru nú 37 í íslenska flotanum. Samkvæmt útgerðarflokkun Fiskistofu fá skuttogarar úthlutað tæpum 219 þúsund tonnum af því heildaraflamarki sem úthlutað var að þessu sinni og skip með aflamark fá tæp 168 þúsund tonn. Smábátar með aflamark og krókaaflamarksbátar fá rúm 53.700 tonn. Vakin er athygli á því að til krókaaflamarks telst eingöngu úthlutun á þorski, ýsu, ufsa, gullkarfa, löngu, blálöngu, keilu, steinbít, hlýra og litla karfa.
Skel- og rækjubætur
Alls 1.876 þorskígildistonnum er úthlutað nú í upphafi árs sem skel- og rækjubótum en það er um 24 tonnum minna en í fyrra og fara þau til 51 báts samanborið við 54 báta á fyrra ári.