Hafró fagnar nýjum úthafssamningi

Deila:

„Hafrannsóknastofnun fagnar þeim áföngum sem hafa náðst með úthafssamningnum og Kumning-Montreal samningnum en bendir jafnframt á að krefjandi verkefni eru fyrir höndum sem verða ekki leyst án víðtækrar þekkingar á vistkerfum.“ Þetta kemur fram á vef Hafrannsóknastofnunar Íslands, eða Hafró.

Þar er vísað t il þess að þann 4. mars var gerður nýr úthafssamningur Sameinuðu þjóðanna en í samningnum er m.a. að finna regluverk um afmörkun svæða sem ekki lúta stjórn ríkja og þar sem aðrar alþjóðastofnanir hafa ekki valdheimildir yfir.

Fram kemur að þetta sé mikilvægt skref í því að ná markmiðum Kunming-Montreal Global Biodiversity Framework samningsins sem gerður var í lok árs 2022, en í honum er kveðið á um að ríki skuli vernda 30% haf- og landsvæða fyrir árið 2030. Sá samningur hefur verið undirritaður af fleiri en 200 ríkjum.

„Meginmarkmið Kumning-Montreal samningsins er að vernda líffræðilega fjölbreytni sem minnkar nú mun hraðar en áður á þekktum jarðsögulegum tíma. Líffræðileg fjölbreytni er grundvöllur nýtingar auðlinda enda tryggir hún seiglu í vistkerfum, meðal annars gagnvart hröðum umhverfisbreytingum, s.s. loftslagsbreytingum og súrnun sjávar. Það er því mikið í húfi að þetta markmið náist,“ segir á vef Hafró en nánar má lesa um afstöðu Hafró hér.

Deila: