Þrír bátar með meira en 20 tonn af humri

Deila:

Humaraflinn það sem af er fiskveiðiárinu, nú í lok maí, er orðinn 137 tonn miðað við slitinn humar. Aflaheimildir á fiskveiðiárinu eru 467 tonn eftir flutning 113 tonna frá árinu áður og því 330 tonn óveidd. Í fyrra var kvótinn 489 tonn af slitnum humri eftir flutning 89 tonna frá árinu áður. Aflinn þá var 363 tonn og óveiddar eftirstöðvar 126 tonn.

Staðan er því orðin þannig að kvótinn er ekki að nást og hærra hlutfall flutt milli ára. Litlar líkur eru á því að kvótinn náist á þeim þremur mánuðum, sem eftir standa af fiskveiðiárinu. Aðeins 8 bátar hafa til þessa stundað veiðarnar. Aflahæstur er Jón á Hofi með 26 tonn. Næst kemur Þinganes ÁR með 24 tonn og þá Skinney SF með 23,6 tonn. Aðrir bátar eru með mun minna.

Hafrannsóknastofnun hefur varað við því að nýliðun í humarstofninum sé mjög lág og mögulega þurfi að takmarka veiðarnar enn meira en gert hefur verið undanfarin ár. Tillögur stofnunarinnar eru væntanlegar í lok maí eða byrjun júní.

„Veiðidánartala hefur verið metin lág undanfarin ár og er undir skilgreindum gátmörkum (FMSY). Nýliðun hefur minnkað síðan 2005 og hefur aldrei verið metin eins lítil og nú. Viðmiðunarstofn hefur minnkað hratt undanfarin ár og hefur ekki verið lægri frá 1980. Hlutfall stórhumars er enn hátt en hefur minnkað frá 2009,“ segir í ráðleggingum Hafró frá síðasta ári.

Afli nær tvöfaldaðist á árunum 2004–2010 þegar hann náði 2500 tonnum miðað við heilan humar. Aflinn minnkaði eftir það, niður í tæp 1400 tonn árið 2016. Sókn í stofninn hefur verið nokkuð stöðug frá árinu 2009 en aflabrögð hafa farið versnandi. Humar er alfarið veiddur í humarvörpu.

Deila: