Góður apríl hjá Gullver

Deila:

Veiðar hjá ísfisktogaranum Gullver NS hafa gengið vel að undanförnu. Í aprílmánuði fór skipið í sex veiðiferðir og landaði samtals 642 tonnum á Seyðisfirði. Uppistaða aflans, eða 374 tonn, var þorskur en síðan landaði hann  79 tonnum af ufsa, 77 tonnum af karfa, 64 tonnum af ýsu og minna af öðrum tegundum.

Rúnar L. Gunnarsson skipstjóri er mjög ánægður með aprílmánuð. „Þetta var súpermánuður hjá okkur, með þeim betri. Veiðiferðarnar voru stuttar eða um fjórir sólarhringar höfn í höfn og aflinn yfirleitt rúmlega 100 tonn í hverri ferð. Við fiskuðum allan mánuðinn á okkar hefðbundnu miðum. Við vorum í Hvalbakshallinu, á Hvalbaksgrunni og í Lónsbugtinni. Við erum afar sáttir við það hvernig veiðarnar hafa gengið, það er ekki hægt annað,“ segir Rúnar í spjalli á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Deila: