Meira af makríl en nokkru sinni

Deila:

Vísitala lífmassamakríls í mælingum sumarsins er sú hæsta frá því að sambærilega mælingar hófust árið 2009. Massinn er nú talinn 10,3 milljónir tonna, sem er 13% meira en í fyrra. Vísitala lífmassa norsk-íslenskrar síldar dróst hins vegar saman um 11% og mælist hann nú 5,9 milljónir tonna. Vístala kolmunna lækkaði um 19% og var massinn metinn 2,7 milljónir tonna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun.

Niðurstöður sameiginlegs makrílleiðangurs Íslendinga, Grænlendinga, Færeyinga og Norðmanna sem farinn var á tímabilinu 3. júlí til 4.ágúst 2017 liggja nú fyrir.  Markmið leiðangursins er að kortleggja útbreiðslu og meta lífmassa makríls, síldar og kolmunna í Norðaustur Atlantshafi meðan á sumarætisgöngum þeirra stendur. Einnig var ástand sjávar og þéttleiki átustofna metið í leiðangrinum líkt og undanfarin ár.

Magn og útbreiðsla fiskitegunda í leiðangrinum.

Magn og útbreiðsla fiskitegunda í leiðangrinum.

2,8 milljóna ferkílómetra hafsvæði

Magn og útbreiðsla makríls á svæðinu var metin út frá afla í stöðluðum yfirborðstogum sem tekin voru með reglulegu millibili á um 2,8 milljón ferkílómetra hafsvæði. Heildarvísitala makríls var metin bæði fyrir lífmassa og fjölda fiska. Vísitala lífmassa var 10,3 mill. tonn sem er 13 % aukning frá fyrra ári og hæsta vísitala frá því að verkefnið hófst árið 2009. Vísitala fyrir fjölda fiska var metin 24,2 milljarðar sem var 2% minnkun frá 2016, sem var hæsta gildi sem mælst hefur.

Í mælingunni voru fjórir árgangar mest áberandi; árgangur 2010 (19 % af heildarfjölda einstaklinga), 2011 (19 %), 2012 (14 %) og 2014 (15 %). Vísitalan fyrir eins árs makríl (2016 árgangurinn) var há í sögulegu samhengi, sem er vísbending um áframhaldandi góða nýliðun í makrílstofninum. Makríll fannst á mest öllu rannsóknasvæðinu og náðist að staðsetja útbreiðslumörk makríls í allar áttir nema suðaustast á svæðinu, þ.e. í Norðursjó og norðan Bretlandseyja. Mestur þéttleiki mældist um miðbik og á norðaustur hluta Noregshafs, og við suðaustur- og vesturströnd Íslands. Þéttleiki makríls við Ísland var mestur vestan við landið, líkt og var 2016.

Mikið af smærri síld

Magn og útbreiðsla norsk-íslenskrar síldar að sumarlagi var metin með bergmálsmælingum. Vísitalan fyrir lífmassa var 5,9 mill. tonn sem er 11 % lækkun frá 2016. Vísitala fyrir fjölda einstaklinga hækkaði hinsvegar um 2 % milli ára sem skýrist af töluverðum fjölda af smærri síld  í mælingunni (árgangi frá 2013) en hann var í mestum fjölda allra árganga (19%). Þessi magnmæling er í góðu samræmi við bergmálsmælingar á stofninum í maí síðastliðnum.  Útbreiðsla stofnsins var að hluta svipuð og undanfarin ár fyrir fullorðna hluta hans þar sem mesti þéttleikinn var norður af Færeyjum, fyrir austan og norðan Ísland. Ólíkt fyrra ári mældist hár þéttleiki einnig í norðaustur Noregshafi sem var mest síld úr 2013 árganginum.

Samdráttur í kolmunna

Annað árið í röð var lögð aukin áhersla á að fylgjast með útbreiðslu kolmunna og meta stærð stofnsins með bergmálsmælingum. Tilgangurinn er að byggja upp nýja tímaröð vísitalna til notkunar við stofnmat Alþjóðahafrannsóknaráðsins  í framtíðinni.  Kolmunnavísitalan mældist 2,7 fyrir lífmassa sem er 19 % lækkun frá 2016, meðan að fjöldavísitalan hækkaði um 4 %. Útbreiðsla kolmunni var svipuð útbreiðslu ársins 2016. Hann fannst á mest öllu rannsóknarsvæðinu nema í köldum sjó út af Austur-Grænlandi og í Austur Íslandsstraumnum milli Íslands og Jan Mayen.

Hærri yfirborðshiti

Yfirborðshiti sjávar mældist svipaður í júlí 2017 og sumarið 2016 á mest öllu hafsvæðinu. Eins var yfirborðshitinn 2017 um 1 – 2 °C hærri en langtímameðaltal síðustu 20 ára fyrir júlí mánuð á mestum hluta austur og norður svæðisins. Á svæðinu milli Íslands og Grænlands var yfirborðshiti júlí mánaðar hinsvegar jafnan um og undir meðaltali síðustu 20 ára. Vísitala fyrir magn dýrasvifs fyrir vestur hluta svæðisins, þ.e.a.s. sunnan, norðan og vestan Íslands og við Grænland, var tvisvar sinnum hærri í júlí 2017 en hún var árið 2016. Hins vegar lækkaði vísitala dýrasvifs lítillega milli 2016 og 2017 á austurhluta rannsóknarsvæðisins, eða í Noregshafi.

Fimm skipa leiðangur

Niðurstöður leiðangursins eru notaðar innan Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ásamt öðrum gögnum, við mat á stofnstærð makríls. Ýmis frekari úrvinnsla á gögnum sem safnað var fer fram á næstu mánuðum. Aflaráðgjöf fyrir næsta ár á grundvelli fyrirliggjandi gagna mun verða kynnt í október nk.  Vísitala makríls verður reiknuð eftir lögsögum og verða þær niðurstöður birtar á næstu dögum.

Fimm skip tóku þátt í leiðangrinum, R/S Árni Friðriksson frá Íslandi, eitt skip frá Færeyjum og frá Grænlandi auk tveggja skipa frá Noregi. Þetta er níunda sumarið sem Hafrannsóknastofnun tekur þátt í þessu verkefni.

Slóð á IESSNS skýrslu 2017. IESSNS report 2017

 

Deila: