Farsæll rekstur Samherja

Deila:

„Við erum stolt af afkomu Samherja hf. Samstillt vinna, eljusemi, dugnaður og traust starfsmanna okkar og samstarfsmanna um allan heim hefur enn á ný skilað afrakstri sem rík ástæða er til að gleðjast yfir,” segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja hf., þegar ársuppgjör Samherja hf. fyrir árið 2016 er kynnt, að loknum aðalfundi.

Hagnaður Samherja hf. af rekstri dóttur- og samstarfsfélaga í fimmtán löndum nam 14,3 milljörðum króna. Rúmur helmingur starfseminnar er í útlöndum. Afkoma dótturfélaganna var einnig arðbær. Miklar fjárfestingar hafa staðið yfir og eru framundan og því var samþykkt á aðalfundi Samherja hf. að greiða ekki arð vegna rekstrarársins 2016.

Fjárfestingar byrjað að skila sér

Þorsteinn Már mynd 2

„Það má segja að á síðasta ári hafi nýjar fjárfestingar byrjað að skila sér. Miklar endurbætur á landvinnslu ÚA á árinu 2015 tókust vel og sex ný skip voru í smíðum á vegum félagsins á árinu 2016. Þetta eru fjárfestingar sem munu leggja grunn að bættri afkomu og sveigjanleika í rekstri á komandi árum. Tvö skipanna, Kaldbakur og Björgúlfur, eru þegar komin til landsins og Cuxhaven hefur haldið til veiða í Þýskalandi. Þá munu verulegar fjárfestingar í Íslandsbleikju treysta fiskeldið,” segir Þorsteinn Már.

Á árinu 2016 greiddi Samherji og starfsmenn 6,8 milljarða til hins opinbera á Íslandi. Greiddur tekjuskattur og veiðigjöld námu samtals 3,1 milljarði. Starfsmenn fyrirtækisins greiddu 2,4 milljarða í staðgreiðslu af launum.

Verkfall setti strik í reksturinn

„Árið 2016 er um margt merkilegt í rekstrinum. Langvinnt verkfall sjómanna hófst á árinu og stóð fram á árið 2017. Verkfallið setti strik í reksturinn en skilaði líka tímabærum og mikilvægum úrbótum. Aðstæður á erlendum mörkuðum voru á margan hátt mótdrægar ekki síst í Rússlandi og Nígeríu, sem hafa verið mjög mikilvægir markaðir fyrir afurðir okkar. Úr þessum vandkvæðum hefur starfsfólki okkar, þrátt fyrir allt, tekist að greiða með einstakri útsjónarsemi og þrautseigju. Fyrirséð er að sterkt gengi krónunnar muni áfram valda erfiðleikum hérlendis hjá útflutningsatvinnuvegunum og ferðaþjónustu,“ segir Þorsteinn Már.

Tekjur Samherja hf., sem er samstæða félaga sem flest starfa á sviði sjávarútvegs, hérlendis og erlendis, námu um 85 milljörðum króna og var hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði um 17 milljarðar króna. Ársreikningur Samherja hf. er í evrum en er umreiknaður í þessari umfjöllun í íslenskar krónur.

Ný landvinnsla einstök á heimsvísu

„Endurnýjun skipastólsins heldur áfram og enn eitt nýtt skip mun bætast við á haustdögum í flota okkar hér og annað nýtt skip til dótturfélags okkar í Þýskalandi. Þannig munum við halda áfram að auka samkeppnishæfni Samherja umtalsvert. Annað stórt skref er bygging nýrrar landvinnslu á Dalvík sem verður einstök á heimsvísu. Þar verður fiskvinnsluhús, búið nýjustu hátæknilausnum sem ég tel að muni marka þáttaskil í íslenskum sjávarútvegi. Ég er bjartsýnn og hlakka til að vinna áfram með frábæru starfsfólki Samherja. Fólkið okkar hefur á undanförnum árum unnið ómetanleg störf sem skipta alla þjóðina miklu máli. Fyrir það er ég þakklátur,” segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja hf.

Deila: