Vilja slíta öll viðskiptatengsl við Rússland

Deila:

Stjórnarandstöðuflokkarnir á lögþingi Færeyja vilja setja öðrum ríkjum fordæmi og slíta á öll viðskiptatengsl við Rússa. Landstjórnin segir slíkt ekki einfalt í framkvæmd en lögþingið greiðir fljótlega atkvæði um löggjöf varðandi viðskiptaþvinganir á hendur Rússum. Þetta kemur fram í frétt á ruv.is

Stjórnarandstaðan á lögþinginu segir ekki eftir neinu að bíða og hvetur landsstjórnina til undirbúa að öllum viðskiptatengslum verði slitið við Rússa  umsvifalaust. Færeyska ríkisútvarpið fjallar um málið. 

Høgni Hoydal, formaður Þjóðveldisflokksins, vill að látið verði af öllum innflutningi frá Rússlandi og eins að hætt verði að selja þangað vörur. Hann vill alls ekki að landsstjórnin bíði aðgerðalaus eftir frumkvæði Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins.

„Um 25 prósent af öllum útflutningi okkar fer til Rússlands, og það er auðvitað alveg rosalega mikið,“ segir Høgni Hoydal. Hann segir alger slit á viðskiptatengslum vera það eina rétta í stöðunni og setji öðrum ríkjum ákveðið fordæmi.

Þingmenn Jafnaðarflokksins eru á sama máli en fulltrúar Sjálfstjórnarflokksins og Framsóknar segjast í grundvallaratriðum sammála. Þó hafi þeir ákveðnar efasemdir. 

Jenis av Rana, utanríkisráðherra Færeyja, segir afstöðu stjórnarinnar til þvingana óbreytta, það er að fylgja stefnu og aðgerðum NATÓ og Evrópusambandsins.  

„Við fylgjumst grannt með aðgerðum þeirra auk þess sem Noregur og Bretland gera,“ segir Jenis av Rana og bendir á að ekkert ríki eða ríkjasamband hafi gripið til viðskiptabanns á matvörur.

Christian Andreasen, nýr formaður Fólkaflokksins tekur undir viðhorf utanríkisráðherrans og segir að vel þurfi að íhuga allar aðgerðir varðandi tengsl sjávarútvegsins við Rússa. 

Deila: