Efla samstarf um fæðuöryggi

Deila:

Fundur matvælaráðherra í norrænu ráðherranefndinni héldu sinn árlega fund í Tromsö í Norður-Noregi 22. júní. Ráðherrarnir 10 lýstu yfir miklum vilja til að efla samstarf milli Norðurlandanna til að bregðast við áhrifum Úkraínustríðsins á fæðuöryggi landanna.

Ráðherrarnir stýra málaflokkum landbúnaðar, sjávarútvegs, matvæla, skógræktar og sjálfbærni. Viðfangsefni fundarins voru þau áhrif sem verðhækkanir fæðu, orku og áburðar hafa haft fram til þessa á Norðurlöndum. Einnig var rætt til hvaða ráðstafana þurfi að grípa til að lágmarka áhrifin og tryggja fæðuöryggi. Almennt voru ráðherrarnir sammála um að aukin áburðar- og prótínframleiðsla ásamt sjálfbærni í sjávarútvegi væru Norðurlöndunum mikilvæg til framtíðar.

Fleira hefur haft áhrif á fæðuöryggi Norðurlandanna síðustu ár en stríðsrekstur. Covid-19 heimsfaraldurinn leiddi í ljós að aðfangakeðjur Norðurlandanna eru viðkvæmar og háðar erlendu vinnuafli, innfluttum matvælum og fóðri. Sumarið 2018 var einnig með eindæmum þurrt og sýndi vel þær áskoranir sem landbúnaðurinn stendur frammi fyrir þegar loftslag breytist.

„Það sem eitt sinn hljómaði sem vísindaskáldskapur er veruleiki okkar í dag. Við erum ekki bara í kreppuástandi heldur tökumst við á við nýjan veruleika og við þurfum nýja sýn á matvælaframleiðslu. Ég legg áherslu á að við getum ekki látið kreppu eða önnur áföll vera átyllur til að fresta aðgerðum vegna loftslagsvandans,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra þegar hún ávarpaði samstarfsráðherra sína á fundinum.
á myndinni eru Anna-Caren Sätherberg Svíþjóð, Árni Skaale Færeyjum, Antti Kurvinen Finnlandi, Svandís Svavarsdóttir Íslandi, Karl Tobiassen Grænlandi, Magnús Rasmussen Færeyjum, Rasmus Prehn Danmörk, Bjørnar Selnes Skjæran Noregi, Fredrik Karlström Álandseyjum, Torfi Jóhannesson skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar. Fyrir miðju: Sandra Borch Noregi (gestgjafi)

Deila: