Sama skipið svipt veiðileyfi í þrígang á árinu

Deila:

Fiskistofa hefur svipt fiskiskipið Emilía AK-57 leyfi til veiða í atvinnuskipti í 14 daga, frá 1. ágúst 2023 til 14. ágúst 2023. Þetta kemur fram á vef stofnunarinnar. Ástæðan er ítrekuð brot á reglugerð nr. 307/2023, með því að hafa ekki skilað aflaupplýsingum í átta aðgreindum veiðiferðum.

Þetta er í annað sinn á þessu ári sem Fiskistofa grípur til þess ráðs að svipta Emilíu AK veiðileyfi vegna þessa en því til viðbótar var skipið svipt veiðileyfi í febrúar vegna vigtarbrots sem átti sér stað í september 2022. Stofnunin hefur því í þrígang svipt skipið veiðileyfi á árinu.

Í úrskurðinum segir meðal annars:

Fyrir liggur að skipstjóri fiskiskipsins Emilía AK-57 (2367) skilaði ekki aflaupplýsingum í átta (8) aðgreind skipti, á sautján dögum, frá 3.-20. apríl 2023. Athugasemdir málsaðila hafa verið raktar og þeim svarað. Eru þær ekki þess eðlis að það leiði til þess að málið sé fellt niður. Málsatvik eru óumdeild og ekki uppi vafi um hina meintu háttsemi enda byggir mat á umræddum brotum á gögnum, og hvort þeim sé skilað eða ekki. Ekkert hefur komið fram í málinu sem leitt getur til þess að skýrsla veiðieftirlitsmanns sé dregin í efa, né hefur málsaðili véfengt málsatvik eins og þeim er lýst að framanverðu. Andmælti málsaðili því ekki að illa hafi tekist til við skráningu og skil aflaupplýsinga á skipi hans. Markmið málsmeðferðar Fiskistofu er að leiða hið sanna og rétta í ljós.

Deila: