Óvenjuleg leið

Deila:

Lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík segir í samtali við ruv.is óvenjulegt að ráðherra sendi mál til lögreglu eins og forsætisráðherra hefur gert í tengslum meinta upplýsingaleka vegna húsleitar hjá Samherja.

Forsætisráðherra sendi lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu erindi til upplýsingar og eftir atvikum meðferðar varðandi meinta upplýsingagjöf starfsmanna Seðlabanka Íslands til RÚV í aðdraganda húsleitar hjá útgerðarfélaginu Samherja í mars 2012, vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum. Forsætisráðherra sagði í hádegisfréttum að sérfræðingar í forsætisráðuneytinu hafi talið eðlilegt að upplýsa lögreglu um meintan leka, enda geti ráðuneytið ekki lagt sjálfstætt mat á eða gert sjálfstæða rannsókn á málinu. Forsætisráðherra sagði að með þessu væri ekki verið að leggja neinn dóm í málinu, enda ráðuneytið ekki til þess bært. Halldóra Þorsteinsdóttir lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík segir þessa leið óvenjulega.

„Það að ráðherrann fari þessa leið þýðir í rauninni hvorki að þarna hafi eitthvað refsivert átt sér stað né að hún telji svo vera. Ég held hins vegar að í ljósi atvika hafi hún talið nauðsynlegt að upplýsa málið og vill greinilega að það sem mögulega kann að vera eitthvað, án þess þó að ég þekki það á þessu stigi, að það sé rannsakað þar sem sú rannsókn á heima, hjá lögreglunni en ekki hjá ráðuneytinu.“
Er þetta óvenjuleg leið?
„Það er ekki daglegt brauð að ráðherra vísi svona máli áfram, en ég held annars að við þurfum ekki að draga neinar víðtækar ályktanir, þetta er kannski eðlilegt í þeirri viðleitni að upplýsa málið.“

Fram kemur í bréfi Seðlabankans til forsætisráðherra í ágúst að starfsmaður bankans hafi verið í sambandi við starfsmann RÚV í um mánaðartíma fyrir húsleitina, en engar trúnaðarupplýsingar hafi verið sendar og ítrekar forsætisráðherra það í bréfi sínu til lögreglunnar.

„Ég myndi ætla að málið lyti að meintum þagnarskyldubrotum og rannsóknin snúi að því, þannig að ef að ráðherra telur fullvíst að þarna séu engar trúnaðarupplýsingar þá sé ég ekki alveg hvernig það rímar saman. En hún er kannski að hafa vaðið fyrir neðan sig og að þetta fari í réttan farveg og sé klárað á réttum stað,“ segir Halldóra Þorsteinsdóttir.

Seðlabankinn segir í yfirlýsingu í dag að bankinn líti þetta mál mjög alvarlegum augum og innan bankans hafi allt verið gert til að upplýsa það. Í bréfi forsætisráðherra til lögreglu er annars vegar vísað í lög um Seðlabankann, þar sem segir að starfsmenn hans séu bundnir þagnarskyldu um allt er varðar hagsmuni viðskiptavina og annað sem þeir fá vitneskju um í starfi og þagnarskyldan haldist þótt störfum sé hætt. Hins vegar er vísað í almenn hegningarlög, um að segi opinber starfsmaður frá nokkru sem hann kemst að í starfi en leynt á að fara, varði það allt að árs fangelsi, en þriggja ára fangelsi, hafi slíkt hafi verið gert til að afla óréttmæts ávinnings. Sama refsing eigi við þótt viðkomandi hafi látið af störfum. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sagði málið ekki hafa borist, en það verði sent í kærugreiningu þegar það gerist.

Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu fór starfsmaður þess með bréfið og afhenti í afgreiðslu lögreglunnar. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum, sem rannsakar kæru Samherja á hendur Seðlabankanum sagðist í samtali við fréttastofu ætla að kalla eftir þessu bréfi, sé það angi af sama máli.

Deila: