Mikið fannst en ekki ástæða til aukningar

Deila:

Þrátt fyrir að umtalsvert magn af loðnu, um 200.000 tonn,  hafi mælst í síðasta leiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar fyrir Norðurlandi, telur stofnunin ekki ástæðu til að leggja til meiri veiði, en gert hefur verið til þessa. Heildarkvótinn verður því áfram 285.000 tonn. Þetta kemur fram í eftirfarandi fréttatilkynningu frá stofnuninni:

Undanfarin ár hafa orðið breytingar á göngumynstri loðnunnar. Í febrúar 2017 fannst töluvert magn loðnu út af Norðurlandi sem leiddi til aukningar í aflamarki á þeirri vertíð. Sú loðna virtist hafa komið seint inn á hefðbundna gönguslóð og því hafa verið utan mælingasvæðis leiðangurs sem farinn var í janúar 2017. Því var ákveðið að halda að nýju til mælinga nú í febrúar.

Meginmarkmið leiðangursins sem lauk síðastliðinn föstudag var að fylgjast með göngum loðnunnar og að kanna hvort að nýjar loðnugöngur hefðu komið inn á svæðið fyrir norðan land eftir að mælingum í janúar lauk. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson fór frá Reykjavík þann 12. febrúar og r/s. Bjarni Sæmundsson tók einnig þátt í mælingunni en hann var í árlegum leiðangri við mælingar á ástandi sjávar umhverfis landið.

Umtalsvert magn af loðnu fannst yfir grunnum út af Norðurlandi, m.a. á svæðum í kringum Grímsey, við Skjálfandadjúp og Öxarfjarðardjúp. Talsverður fjöldi norskra veiðiskipa var að loðnuveiðum á svæðinu, fyrst við Þistilfjarðardjúp og síðar í Öxarfirði og Skjálfanda og gáfu þau upplýsingar um dreifingu og göngur á svæðinu. Alls mældust rúm 200 þúsund tonn vestan línu sem dregin er norður úr Fonti á Langanesi, en í janúar sl. höfðu mælst rúm 300 þúsund tonn á því svæði. Magn og dreifing loðnunnar fyrir Norðurlandi ásamt aldurs- og stærðarsamsetningu hennar gefa ekki ákveðnar vísbendingar um að nýjar loðnugöngur hafi bæst við það sem áður var mælt.

Byggt á niðurstöðum þessara athugana eru því ekki fyrir hendi forsendur til að leggja til breytingar á fyrri ráðgjöf um heildaraflamark vertíðarinnar 2017/2018 en á grundvelli gildandi aflareglu hafði Hafrannsóknastofnun lagt til þann 2. febrúar síðastliðinn að loðnukvótinn á vertíðinni 2017/2018 yrði 285 þúsund tonn eða 77 þúsund tonnum hærri en ráðgjöf stofnunarinnar frá því í október.

 

 

Deila: