Góð karfaveiði á Melsekk

Deila:

,,Aflabrögðin eru með ágætum. Þetta er fjórði fullfermistúrinn hjá okkur í röð og útlitið er gott,“ segir Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK, í samtali á heimasíðu HB Granda, en skipið kom til hafnar í Reykjavík í vikunni með um 184 tonna afla.
Að sögn Heimis var mjög góð karfaveiði á Melsekk suðvestur af Reykjanesi.
,,Nú er runninn upp besti veiðitíminn á karfanum og við eigum von á því að veiðin verði góð a.m.k. út apríl,“ segir Heimir en eftir karfaveiðina var haldið á Fjöllin vestur af Reykjanesi.
,,Þar var nóg af milliufsa og svo fengum við þorsk sem meðafla. Við fengum svo þorsk á Eldeyjarbankanum en þangað fórum við til að leita að stórufsa. Það var stór ufsi á Selvogsbankanum í lok febrúar og í byrjun mars, eða kringum síðasta stórstreymi, og þá fengum við um 70% ufsa og 30% þorsk yfir nóttina en svo snerust hlutföllin við á daginn. Stórufsaveiðin hefur dregist saman síðan þá en vonandi rætist úr henni nú í næsta stórstreymi,“ segir Heimir  Guðbjörnsson en hann segir gott veður hafa einkennt veiðina í marsmánuði eftir hræðilegt tíðarfar í nýliðnum febrúarmánuði.

Deila: