Hafa í hendi sér að útflutningsverðmæti um 100 milljarða

Deila:

„Íslensk stjórnvöld hafa það nú í hendi sér að auka hér útflutningsverðmæti á sjávarafurðum um 100 milljarða á næstu árum eða sem nemur sömu útflutningsverðmætum og þorskstofninn gefur af sér í dag.  Nágrannaþjóðir okkar, Noregur, Færeyjar og Skotland hafa nú þegar nýtt sér sama sóknarfæri og byggt upp öflugan fiskeldisiðnað í sínum löndum.  Hér er komin viðbót við íslenskan sjávarútveg sem ekki hefur þegið eða beðið um neina uppbyggingarsamninga eða aðrar fyrirgreiðslur af hendi ríkisvaldsins, heldur er að byggja upp þekkingarsækinn iðnað á landsbyggðinni sem mun tryggja byggðafestu á viðkomandi svæðum enn frekar, auka útflutningstekjur þjóðarinnar og nýta þær ónýttu auðlindir sem Ólafur Thors hvatti komandi kynslóðir til að nýta.

Því verð ég að lýsa yfir miklum vonbrigðum með að nú liggi fyrir Alþingi, frumvarp um auðlindagjald af sjókvíaeldi þegar að það liggur fyrir að greinin er rétt að slíta barnskónum, er í uppbyggingarfasa og ekki eitt fyrirtæki í sjókvíaeldi er ennþá farið að skila hagnaði.  Hér er nýr akur, sem getur gefið ríkulega af sér til framtíðar.“

Svo sagði Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á nýafstöðnum ársfundi samtakanna. ávarp hans fer hér á eftir:

Ólafur Thors sagði í áramótaávarpi sínu árið 1945: „Aðalatriðið hlýtur að vera hitt, að stæla þróttinn og ganga með víkingslund að því að hagnýta þau gæði, sem landið á ónotuð. Sá auður er kanski torsóttur, en hann er ótæmandi. Ef við íslendingar förum rjett að, stýrum djarft, en gætum þess þó að kollsigla okkur ekki, getum við orðið rík þjóð.“

Þarna talaði forsætisráðherra til fátækrar þjóðar sem taldi 130 þúsund manns.  Hann lagði sig fram um að kveikja von og þrá um að framundan væru betri tímar fyrir land og þjóð.  Vegferð okkar Íslendinga til hagsældar og velmegunnar hefur verið grýtt á köflum en í dag teljumst við til ríkustu þjóða heims.

Sem eyþjóð við heimskautsbaug höfum við þurft að treysta afkomu okkar á viðskipti við aðrar þjóðir.  Engum dyr var lokað og við áttum farsæl viðskipti við þjóðir þvert á landamæri, köld stríð eða aðrar pólitískar stefnur.  Heimsvaldapólitík stoppaði okkur ekki í að auka hagsæld og velferð – Íslendingar byggðu brýr til þeirra þjóða, sem vildu eiga við okkur viðskipti.  Stjórnmálamenn dagsins í dag verða einnig að hafa það hugfast að ennþann dag í dag byggjum við velferðarsamfélag okkar á sömu forsendum.  Frjálsum og óheftum viðskiptum.

En það er ekki nóg að markaðir standi okkur opnir.  Við sem þjóð þurfum líka að vera samkeppnishæf á hinum alþjóðlega markaði og þar hefur hallað verulega undan fæti undanfarin misseri.  Því miður er það svo að síaukin skattheimta og gjaldtaka undanfarinna ára og hækkandi rekstrarkostnaður er farinn að taka verulega í hjá mörgum sjávarútvegsfyrirækjum í dag.

Það var athyglisvert að lesa nú fyrir stuttu að stærstu flokkar Noregs, Höjre, Fremskrittspartiet og Venstre eru allir búnir að álykta gegn aukinni gjaldtöku á bæði hefðbundinn sjávarútveg og fiskeldi.  Í slagorði Höjre stóð; „Skapa meira – ekki skatta meira“.  Flokkarnir voru sammála um það að með því að gefa atvinnugreinunum svigrúm til að stækka og dafna þá myndu fyrirtækin fjárfesta, tryggja og skapa aukna atvinnu og byggðafestu og sækja fram í nýsköpun og tæknivæðingu. Með þeim hætti myndi norska þjóðin bera mest úr bítum, eða eins og góður maður sagði við mig á dögunum: “Skatttekjur aukast ekki með hærri skattprósentu, heldur með því að rækta skattstofninn“.

Ég veit að núverandi stjórnvöld hafa mikinn metnað og vilja til að auka verðmætasköpun og útflutning.  Því kalla ég eftir því að stjórnvöld og íslensk sjávarútvegsfyrirtæki vinni saman að því að einfalda umgjörð og regluverk greinarinnar og vinni saman að því að efla og styrkja hafrannsóknir á lífríkinu í kringum Ísland.

Undanfarna mánuði hefur margoft komið fram í ræðu og riti að Íslendingar verði að auka útflutningstekjur sínar um 1.000 milljarða næstu 20 ár – eða um 1 milljarð á viku – til að viðhalda þeim lífskjörum sem við búum við í dag.

Ég hef óbilandi trú á sköpunarkrafti og framtakssemi Íslendinga og tækifærin eru allt í kringum okkur til að sækja fram og stórauka útflutningsverðmæti bæði til sjós og lands.

Íslensk stjórnvöld hafa það nú í hendi sér að auka hér útflutningsverðmæti á sjávarafurðum um 100 milljarða á næstu árum eða sem nemur sömu útflutningsverðmætum og þorskstofninn gefur af sér í dag.  Nágrannaþjóðir okkar, Noregur, Færeyjar og Skotland hafa nú þegar nýtt sér sama sóknarfæri og byggt upp öflugan fiskeldisiðnað í sínum löndum.  Hér er komin viðbót við íslenskan sjávarútveg sem ekki hefur þegið eða beðið um neina uppbyggingarsamninga eða aðrar fyrirgreiðslur af hendi ríkisvaldsins, heldur er að byggja upp þekkingarsækinn iðnað á landsbyggðinni sem mun tryggja byggðafestu á viðkomandi svæðum enn frekar, auka útflutningstekjur þjóðarinnar og nýta þær ónýttu auðlindir sem Ólafur Thors hvatti komandi kynslóðir til að nýta.

Því verð ég að lýsa yfir miklum vonbrigðum með að nú liggi fyrir Alþingi, frumvarp um auðlindagjald af sjókvíaeldi þegar að það liggur fyrir að greinin er rétt að slíta barnskónnum, er í uppbyggingarfasa og ekki eitt fyrirtæki í sjókvíaeldi er ennþá farið að skila hagnaði.  Hér er nýr akur, sem getur gefið ríkulega af sér til framtíðar.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa sett umhverfismálin á oddin undanfarin misseri og má segja að við höfum slegið tóninn með Umhverfisskýrslu SFS sem kom út 12. desember 2017.  Og það er ekki að ástæðulausu.

Umhverfismál eru orðin fyrirferðarmikil í umræðunni í dag og vægi þeirra mun alltaf aukast, ekki síst meðal neytenda – og íslenskur sjávarútvegur hefur góða sögu að segja í árangri í umhverfismálum.  Greinin hefur nú þegar náð markmiðum Parísarsamkomulagsins og hefur enn stærri og metnaðarfyllri framtíðarplön um kolefnisjöfnun íslensks sjávarútvegs.  Ríkisstjórn Íslands hefur lýst yfir metnaði sínum til að gera enn betur í minnkun kolefnislosunar og almennt í baráttunni við loftlagsbreytingar og því veit ég að íslensk stjórnvöld munu hafa metnað, til að taka þátt í þeirri vegferð með greininni að kolefnisjafna íslenskan sjávarútveg.

Kæru vinir,

Íslenskur sjávarútvegur hefur oftar en einu sinni sýnt það í gegnum tíðina að hann er sveigjanlegur, framsækin og hugmyndaríkur. Á því leikur enginn vafi. Ofan í kaupið hafa fjárfestingar sjávarútvegsfyrirtækja stutt dyggilega við uppbyggingu íslenskra tæknifyrirtækja víða um land. Þessi fyrirtæki selja nú vöru sína til útlanda fyrir milljarðatugi. Þar vex svo sannarlega auðlind af auðlind sem allir geta verið stoltir af. Og talandi um stolt, ágætu fundarmenn.

Hvar sem ég kem á erlenda grundu að ræða málefni íslensks sjávarútvegs dást menn að því hvernig okkur hefur tekist að nýta þessa auðlind. Það er að sjálfsögðu ekki allt yfir gagnrýni hafið, en þau vandamál sem upp hafa komið hafa verið leyst af yfirvegun og skynsemi. Það er ekki á mörgum sviðum sem hægt er að segja að við Íslendingar séum fremstir í heimi. En ég segi, með stolti og skal standa við þá fullyrðingu hvar og hvenær sem er, íslenskur sjávarútvegur er einn sá framsæknasti og best rekni sjávarútvegur í heimi. Íslenskur sjávarútvegur er eitthvað sem allir geta og eiga að vera stoltir af.

 

 

 

Deila: