Eikarbáturinn Bryndís ÍS gengur í endurnýjun lífdaga

Deila:

Á fjörukambinum við ós Glerár á Akureyri er trégrindarhús sem reis á síðasta ári, plasteinangrað og gluggalaust. Húsið sem slíkt lætur ekki mikið yfir sér en innan veggja er hins vegar verið að vinna að merkilegu verkefni. Húsið var reist yfir eikarbátinn Bryndísi ÍS sem byggður var árið 1939 og er elsti skráði eikarbátur landsins. Eigandi bátsins er Hörður G. Jóhannsson á Akureyri sem hafði lengi haft augastað á að eignast eikarbát til að gera úr honum skemmtibát fyrir sig og fjölskylduna. Tækifærið bauðst þegar atvinnuútgerð Bryndísar ÍS lauk í Bolungarvík um síðustu aldamót og þá eignaðist Hörður bátinn og sigldi honum í framhaldinu til Akureyrar.

Hörður, sem er rafvirki og vélfræðingur að mennt, er mikill áhugamaður um smíðar og segir þetta verkefni sameina smíðaáhugann og þá hugsjón að varðveita gamla báta og sögu bátasmíða á liðinni öld. Hann nýtur þess að hafa dyggan stuðning fjölskyldu sinnar í þessu stóra verkefni sem segja má að hafi farið á fulla ferð síðasta haust þegar byggt var yfir bátinn og hin eiginlega endurbygging og smíðavinna hófst. Þau feðgin Hörður og Lilja Dís, sem aðstoðar föður sinn í verkefninu, tóku fúslega á móti blaðamanni og sögðu frá verkefninu.

Sama nafn frá upphafi Bryndís ÍS er 14,2 metrar að lengd og mesta breidd bátsins er 3,7 metrar en báturinn er skráður 19 tonn. „Báturinn hefur alla tíð borið Bryndísarnafnið sem er nokkuð merkilegt miðað við þessa löngu útgerðarsögu allt frá 1939 til aldamóta. Algengast er að nöfnum báta sé breytt þegar þeir fara milli eigenda en jafnvel þó Bryndís hafi á þessum áratugum fengið nýja eigendur þá héldu þeir allir þessu nafni. Hið sama gildir um systurskipið, Sædísi. Báðir voru bátarnir alla tíð gerðir út frá Ísafirði og Bolungarvík,“ segir Hörður um sögu Bryndísar. Eins og fram kemur í meðfylgjandi samantekt er Bryndís ein af sex eikarbátum sem Bárður G. Tómasson hannaði og smíðaði á sínum tíma fyrir útgerðarfélagið Njörð á Ísafirði. Þegar sögu þeirrar útgerðar lauk fóru fjórir þeirra hver í sína áttina til nýrra útgerða en Bryndís og Sædís voru áfram við Djúpið.

„Þremur bátanna var eytt eftir að útgerð þeirra lauk en mér finnst nokkuð merkilegt að enginn af þessum bátum fórst, þ.e. að manntjón varð, líkt og átti við um marga trébáta á síðustu öld. Þó sökk ein af Dísunum en öllum um borð var bjargað í því óhappi og mannskapnum var engin hætta búin. Því er óhætt að segja að útgerð bátanna hafi alltaf verið farsæl, ekki síst þegar haft er í huga að allt voru þetta bátar sem voru í stífu útræði. Að mínu mati er mjög mikils virði að tveir þeirra, Bryndís og Sædís, varðveiti þessa sögu því þetta eru bátar sem algjörlega eru byggðir á íslensku hugviti og hönnun og eru merkilegur kafli í sögu trébátasmíði og trébátaútgerðar á Íslandi,“ segir Hörður.

Nánar er greint frá þessu merkilega verkefni í máli og myndum í nýjasta tölublaði Sóknarfæris, sem lesa má hér.

Deila: