Frábær síldveiði fyrir vestan

Deila:

Beitir NK hélt til veiða á íslenskri sumargotssíld sl. föstudag að því er fram kemur á vef Sídlarvinnslunnar. Veiðarnar gengu að sögn vel og er hann á leiðinni til Neskaupstaðar með 1.420 tonn, þegar þetta er birt.

Á heimasíðunni er rætt við Sturlu Þórðarson skipstjóra. „Við vorum að veiða 40 – 50 mílur vestur úr Öndverðarnesi og það var bongóblíða allan tímann. Það er töluvert að sjá af síld þarna í myrkrinu en hins vegar lítið að sjá á daginn. Aflann fengum við að mestu í fjórum holum en tókum síðan eitt örstutt hol til viðbótar í lokin. Mér líst ágætlega á þessa síld en hún er á bilinu 300 – 330 grömm. Síldin er algjörlega átulaus og síðan hafa menn ekki orðið varir við neina sýkingu. Það var bullandi veiði hjá bátunum sem voru þarna og til dæmis var Vilhelm Þorsteinsson kominn með góðan afla. Við verðum í Neskaupstað síðdegis á morgun. Mér líst bara vel á þessar veiðar og það er alltaf gaman þegar vel fiskast,“ er haft eftir Sturlu.

Deila: