Norðmenn fiskuðu loðnu fyrir 2,5 milljarða hér við land

Deila:

Norðmenn eru nú búnir að gera upp loðnuvertíð sína við Ísland í vetur. Heildaraflinn varð 74.000 og svaraði það til leyfilegs heildarafla þeirra. Þeir stunda nú loðnuveiðar við Noregsstrendur með góðum árangri.

Hlutur Norðmanna út heildarkvótanum við Ísland skiptist þannig að 22.800 tonn er hlutur þriðja lands af heildinni, 31.024 tonn frá Íslandi vegna Smugusamningsins og 20.000 frá Evrópusambandinu, sem framseldi þá Noregi hlutdeild sína. Norðmenn tóku allan afla sinn innan íslensku lögsögunnar.

Fyrsta loðnuafla sinn fengu Norðmenn 22. janúar og veiðarnar stóðu til síðasta dags leyfilegs veiðitíma, 22. febrúar. Megnið af aflanum fékkst í febrúar, 70.000 tonn og varð slæmt veður til að draga veiðarnar á langinn. Mikil áta var í loðnunni og hún því lítt fýsileg til framleiðslu til manneldis, þátt fyrir að loðnan væri tiltölulega stór eða um 40 stykki í kílói.

Aðeins um 8.500 tonn fóru því til manneldisvinnslu og 65.000 í mjöl og lýsi. Á síðasta ári varð heildarafli Norðmanna á vertíðinni hér 59.300 tonn. Til manneldisvinnslu fóru þá 51.900 tonn og 6.300 í mjöl og lýsi. Nú var megninu af aflanum landað i íslenskum höfnum, eða 85% á móti 50% í fyrra.

Verðmæti loðnuafla Norðmanna hér við land varð nú 2,5 milljarðar á móti 4 milljörðum árið 2017. Verðmætið hefur því fallið verulega þrátt fyrir 15.000 tonn aflaaukningu og skýrist það að því hve hátt hlutfall fór í mjöl og lýsi. Meðalverð á kíló nú var um 33,60 krónur, en í fyrra var það 72 krónur á kíló. Það er lækkun um 53%. Verð loðnu til manneldis nú var 38 krónur en 77 krónur í fyrra. Verð á kíló til vinnslu í mjöl og lýsi í fyrra var 31 króna en hækkaði í 33 krónur nú.

 

Deila: