Norðmenn moka upp loðnu

Deila:

Norðmenn mokveiddu loðnu í síðustu viku á heimamiðum sínum. Alls var tilkynnt um 53.500 tonna afla og þarf að fara aftur til ársins 2010 til finna meiri afla á einni viku. Þá bárust 55.000 tonn að landi í níundu viku ársins. Norðmenn eru nú búnir að veiða um 75.000 tonn af heildarkvóta sínum í Barentshafi upp á 122.500 tonn.

Mest af loðnunni í síðustu viku tóku stóru nótabátarnir eða 35.600 tonn. Smærri bátar tóku 9.800 tonn og í troll voru tekin .600 tonn. Einn rússneskur bátur meldaði 500 tonn.

Veiðarnar hafa verið tiltölulega langt vestur af norðurhluta Troms, við Fuglöybanken og við norðurmörk af Loppehavet. Þá hefur loðna veiðst austan við Honningsvaag. Skipstjórarnir hafa verið að tilkynna um gífurlega miklar torfur á göngu upp að ströndinni til hrygningar og snúast veiðarnar um að kasta í jaðar göngunnar til að fá ekki of stór köst.
Loðnan í Barentshafinu er smærri en sú sem veiðist við Ísland. Að meðaltali eru 49 stykki í kílói, en 58 ef bara hrygnan er tekin. Þar sem markaðir úti í heimi sækast eftir sem stærstri loðnu, fæst lægra verð fyrir þá sem smærri er og því er verðið á frystri loðnu til manneldis fremur lágt. Þar sem veiðin hefur einnig verið mikil hefur ekki náðst að vinna jafnmikið af loðnunni til manneldis og ella. Þess vegna hafa um 24.000 tonn farið í mjöl og lýsi.

Hrognafylling í loðnunni er orðin nokkuð góð og á sunnudag var hæsta hlutfallið orðið 22%. Gert er ráð fyrir að vinnsla hrogna hefjist á næstu dögum.

Deila: