Engey hálfnuð heim

Deila:

Hinn nýi ísfisktogari HB Granda, Engey RE, var hálfnaður á siglingu sinni frá Tyrklandi til Íslands er rætt var við Friðleif Einarsson skipstjóra á heimasíðu HB Grandaum kvöldmatarleytið í fyrradag. Engey var þá að ljúka við að fara um Gíbraltarsund og framundan var því Atlantshafið og vikulöng sigling til Reykjavíkur.

,,Það hefur allt gengið að óskum fram að þessu. Við höfum hreppt hressilegan mótvind en í dag höfum við verið á lensi. Hér er ótrúlega mikil skipaumferð en allt gengur vel ef maður fylgir settum reglum,“ segir Friðleifur en hann siglir Engey heim ásamt sex öðrum skipverjum. 15 manns verða svo í áhöfninni þegar heim er komið eða jafn margir og eru á Ásbirni RE.
Að sögn Friðleifs eru það gríðarleg viðbrigði að taka við þessu nýja skipi og allur aðbúnaður og annað sé miklu betra en hann hefur átt að venjast.
,,Þetta er sennilega allt að því þrisvar sinnum stærra skip en Ásbjörn sem ég hef verið með. Bara breidd skipsins er fjórum metrum meiri en á Ásbirni. Stefnislagið er óneitanlega sérstakt en það venst mjög vel. Því er ætlað að kljúfa ölduna betur og þá einkum í mótvindi. Þá eru olíutankarnir mun stærri og við verðum mest með mánaðarbirgðir af olíu, sem svarar til fjögurra veiðiferða.“
Góð veðurspá er fyrir næstu tvo dagana en Friðleifur segir að það muni koma honum verulega á óvart á þessum árstíma ef góða veðrið muni haldast alla leiðina til Íslands.
,,Við fáum örugglega brælu á okkur á leiðinni. Svæðið milli Írlands og Íslands getur verið sannkallað veðravíti um hávetur en við erum við öllu búnir,“ segir Friðleifur Einarsson sem vonast til að koma til hafnar í Reykjavík í kringum 25. janúar nk.
 

 

Deila: