Makrílvertíð að ljúka

Deila:

Makrílvertíðinni er nú að ljúka. Smábátar hafa hætt veiðum og flest stóru skipin eru komin á síld. Alls er makrílaflinn á vertíðinni 123.000 tonn. Leyfilegur afli er 146.000 tonn eftir millifærslu frá fyrra ári og því óveidd ríflega 23.300 tonn. Heimilt er að flytja 10% aflaheimilda af útgefnum kvóta yfir á næsta ár. Hann var samtals um  132.00 tonn, þannig að nokkuð af heimildum fellur óbætt hjá garði. Á það við alla útgerðarflokka.

Aflareynsluskipin eru með langmestan afla, 110.500 tonn. Leyfilegur afli þeirra eftir millifærslu frá skipum án vinnslu og vinnsluskipum var 127.300 tonn og því óveidd um 16.800 tonn. Vinnsluskipin voru með 3.200 tonn afla, en aðeins þrjú þeirra fóru á makríl í sumar. Megnið af heimildum þeirra var flutt yfir á aflareynsluskipin. Engin skip í flokknum skip án vinnslu stunduðu veiðar frekar en í fyrra og heimildir þeirra fluttar yfir á aflareynsluskipin.

Aflahæstu skipin eru Víkingur AK með 9.300 tonn, Guðrún Þorkelsdóttir SU með 8.300 tonn og Hoffell SU með 8.100 tonn.

Afli smábata var um 3.700 tonn. Kvóti þeirra var um 5.900 tonn auk möguleika á kaupum á viðbótarkvóta. Tveir bátar fóru yfir 200 tonnin, báðir með um 213 tonn, Siggi Bessa SF og Fjóla GK.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

Deila: