Haustbragur á veiðunum

Deila:

Dótturfélag Síldarvinnslunnar í Vestmannaeyjum, Bergur-Huginn, gerir út togarana Vestmannaey og Bergey. Eins og undanfarin ár hafa skipin lagt stund á veiðar út af Suðausturlandi og Austfjörðum á þessum árstíma. Aflanum er svo ýmist landað fyrir austan eða í Eyjum.

Arnar Richardsson, rekstrarstjóri, segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar að veiðarnar hafi gengið vel síðustu vikurnar. „Það er haustbragur á veiðum skipanna og það hefur aflast vel. Vestmannaey landaði fullfermi á Seyðisfirði í gær og var uppistaða aflans þorskur og ýsa. Vestmannaey hóf veiðar í túrnum út af Suðausturlandi en færði sig svo á Austfjarðamið. Bergey er á miðunum út af Suðausturlandinu og er að veiða ýsu, kola og ufsa. Gert er ráð fyrir að hún landi í Vestmannaeyjum á morgun. Við erum kátir með veiðarnar og verðin hafa verið að þokast upp á við,“ segir Arnar.
Á myndinni kemur Bergey VE til hafnar með góðan afla.
Ljósm. Tói Vídó

 

 

Deila: