Breytingar í eiginarhaldi Bacco Seaproducts

Deila:

Síðastliðinn föstudag keyptu Hjalti Halldórsson og Bjartmar Pétursson hlut Sigurðar Gísla Björnssonar og Magnúsar Guðmundssonar í fyrirtækinu Bacco Seaproducts. Eftir viðskiptin er fyrirtækið alfarið í eigu Hjalta og Bjartmars samkvæmt yfirlýsingu frá fyrirtækinu.

Hjalti Halldórsson, framkvæmdastjóri og annar eigenda Bacco Seaproducts, segir að nauðsynlegt hafi verið að Sigurður Gísli seldi sinn hlut vegna meintra skattalagabrota sem nú eru til rannsóknar. Ákvörðunin hafi verið tekin til að vernda framtíðarhagsmuni félagsins og viðskiptasambönd þess. Sigurður Gísli sé nú ekki á nokkurn hátt tengdur Bacco Seaproducts.

Sigurður Gísli er stofnandi og eigandi útflutningsfyrirtækisins Sæmark ehf. Á mánudag sagði allt lykilstarfsfólk Sæmarks upp störfum hjá félaginu. Hjalti segir það hafa leitað til Bacco Seaproducts eftir störfum. Ekkert þeirra sé grunað um að hafa haft nokkra aðkomu að meintum brotum Sigurðar Gísla. Ákveðið hafi verið að bjóða starfsfólkinu störf hjá Bacco Seaproducts enda búi það yfir þekkingu og reynslu sem sé mikilvæg íslenskum sjávarútvegi.

Hagsmunir framleiðanda, starfsfólks og viðskiptavina hafi verið hafðir að leiðarljósi við ákvörðunina.

„Í öllu okkar starfi höfum við lagt áherslu á  gæði og áreiðanleika og þannig boðið viðskiptavinum okkar uppá fyrsta flokks vöru. Við höfum ávallt lagt metnað okkar í að sýna fagmennsku og gegnsæi í störfum okkar og eru þessar ákvarðanir hluti af þeirri stefnu,” segir Hjalti.

 

 

Deila: