,,Vitlaust veður lengst af túrnum“
Áhöfnin á Akurey AK kom til Reykjavíkur í gærmorgun úr veiðiferð sem stóð yfir í fimm daga. Veiðiferðin byrjaði á nokkrum holum á Reykjanesgrunni en veiðum lauk í Víkurálnum á miðvikudag.
,,Við höfðum spurnir af ufsaveiðum á Reykjanesgrunni og því var ákveðið að byrja þar. Við tókum ein þrjú hol og fengum sæmilegasta ufsaafla,“ segir Eiríkur Jónsson skipstjóri í samtali á heimasíðu HB Granda.
Frá Reykjanesgrunni var stefnan sett á Vestfjarðamið.
,,Við vorum að veiðum í kantinum vestur af Vestfjörðum og lengst af í snælduvitlausu veðri. Veðrið byrjaði ekki að ganga niður af einhverju marki fyrr en aðfararnótt þriðjudags. Þrátt fyrir slæmar aðstæður var þokkalegasta kropp og við erum með um 120 tonna afla. Mest er þetta þorskur en einnig karfi og ufsi og svo eru nokkrir ýsusporðar með í aflanum.“
Að sögn Eiríks var ekki mikið um skip á miðunum en fréttir bárust hins vegar af því að nokkur skip hefðu fengið sæmilegan ýsuafla á Strandagrunni.
,,Þangað voru 150 mílur og veðráttan gaf ekki tilefni til ferðalaga. Við létum Halann sömuleiðis eiga sig en menn eru sammála um að þar hafi verið rólegt yfir aflabrögðum síðustu vikuna. Við ákváðum að enda túrinn á veiðum í Víkurálnum og þar fengum við þorsk og karfa,“ segir Eiríkur Jónsson.