Byrjaði 9 ára í síld

Deila:

Maður vikunnar á Kvótanum að þessu sinni er annar tveggja skipstjóra á Kristrúnu RE 177. Þeir eru einn af fáum bátum sem stunda veiðar á grálúðu í net auk annarra veiða. Pétur Karl Karlsson byrjaði ungur í fiski eða 9 ára þegar hann saltaði síld með móður sinni. Hann langar í frí með frúnni til Kúbu.

Nafn?

Pétur Karl Karlsson.

Hvaðan ertu?

Ég er fæddur í Reykjavík en er uppalinn í Grindavík og á Siglufirði, tel mig nú vera Siglfirðing.

Fjölskylduhagir?

Ég er giftur Þórunni Öldu Gylfadóttur og eigum við saman eina dóttur, fyrir áttum við sitt hvor tvö börnin frá fyrri samböndum.

Hvar starfar þú núna?

Starfa hjá Fiskkaup í Reykjavík sem Stýrimaður og skipstjóri á Kristrúnu RE 177.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég byrjaði að vinna 9 ára gamall að salta síld með móður minn í Gjögri árið 1978. Ég vann svo hálfan daginn í Fiskanesi sumarið 1981 þá 12 ára gamall.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Skemmtilegast við þessa vinnu er spennan, þú veist aldrei hvernig næsti mánuður verður.

En það erfiðasta?

Erfiðast er fjarvistin frá ástvinum.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Það var þegar Þórunn Alda kom með mér út á sjó á Múlaberginu SI, það gerði hún reyndar tvisvar sinnum viku í senn. Líkaði henni vistin alveg ágætlega.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Það er Kristján Elís Bjarnason fyrrverandi skipstjóri á Múlaberginu SI, ég starfaði með honum í 18 ár. Byrjaði sem háseti hjá honum og endaði sem skipstjóri á móti honum. Lærði ég mikið af honum á þessum árum. Kristján var afar eftirminnilegur skipstjóri, hann var fiskinn og kann að koma fyrir sig orði. Þeir sem hafa róið með honum muna eftir honum.

Hver eru áhugamál þín?

Við fjölskyldan ferðumst mikið saman bæði innanlands og erlendis. Svo er það auðvitað að fylgjast með besta liðinu í enska boltanum sem er Liverpool, reyni að horfa á sem flesta leiki. Til stendur að rifja upp golfið sem ég stundaði áður en ég kynntist konunni, ætlunin er að reyna að draga hana með mér í golfið.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Nautalundin klikkar seint.

Hvert færir þú í draumfríið?

Kúba, mig hefur alltaf langað að fara þangað með konunni.

Á myndinni er Pétur ásamt eiginkonu sinni Þórunni Öldu Gylfadóttur

 

 

Deila: