Brim kaupir Kamb og Grábrók

Deila:

Brim hf. hefur gert samning um kaup á tveimur sjávarútvegsfyrirtækjum. Annað er Fiskvinnslan Kambur hf. sem rekur útgerð og fiskvinnslu í Hafnarfirði og hitt er útgerðarfélagið Grábrók ehf. sem einnig gerir út frá Hafnarfirði.

Fiskvinnslan Kambur gerir út krókabátinn Kristján HF 100 sem var smíðaður í Trefjum hf. í Hafnarfirði á síðasta ári og er búinn öllum nýjasta tækjabúnaði til veiða og aflameðferðar. Honum fylgir um 2.000 tonna krókaaflamark að mestu í þorski. Þá rekur fyrirtækið tæknivædda fiskvinnslu í eigin húsnæði við Óseyrarbraut í Hafnarfirði sem er búin margvíslegum hátæknibúnaði m.a. nýrri vinnslulínu og vatnsskurðarvél frá Völku hf. sem var tekin í notkun á síðasta ári. Kaupverðið nemur 2.3 milljörðum króna og verður greitt að hluta með hlutabréfum í Brimi hf. sem eru í eigu félagsins og nema um 1% af heildarhlutafé Brims að verðmæti um 835 milljónir króna. Grábrók ehf. gerir út krókabátinn Steinunni HF 108 sem var smíðaður árið 2007. Honum fylgir um 850 tonna krókaflamark að mestu í þorski. Kaupverðið er 772 milljónir króna.

Samkomulagið er háð eðlilegum fyrirvörum m.a. um fjármögnun, samþykki stjórnar Brims hf. og samþykki Samkeppniseftirlits og eftir atvikum annarra eftirlitsaðila.

Gangi kaupin eftir fer Brim yfir lögbundið kvótaþak í krókaaflamarki en hefur lögum samkvæmt 6 mánuði til að gera ráðstafanir sem koma félaginu undir það þak.

„Með þessum kaupum erum við að styrkja Brim sem alhliða fyrirtæki í sjávarútvegi. Við viljum efla starfsemi Brims samhliða því að við höfum styrkt stöðu okkar í markaðssetningu og sölu á vörum félagsins á erlendum mörkuðum. Við bætum núna við okkur þorskveiðiheimildum, tæknivæddum vinnslueiningum og mannauð sem gerir félagið betur í stakk búið til að takast á við erlenda samkeppni í vinnslu íslenskra sjávarafurða. Kambur verður rekinn áfram í húsnæði félagsins sem sjálfstætt dótturfélag Brims en við stefnum að góðu samstarfi með aukna sérhæfingu að markmiði þegar fram líða stundir,“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims hf.

Deila: