Vilja lengra strandveiðitímabil

Deila:

Landssamband smábátaeigenda vill að tímabil strandveiða verði lengt í 6 mánuði á ári. Veiðidögum verði úthlutað á tímabili í stað mánuði. Valdagar verði alla daga vikunnar. Í stað dagsafla komi vikuafli. Í stað 650 þorskígilda á dag verði heimilt að veiða 2.600 þíg á viku. Öllum séu tryggðir 48 róðradagar á tímabilinu. Þetta var samþykkt á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda sem var haldinn í lok síðustu viku.

Jafnframt lýsti fundurinn yfir stuðningi við núverandi svæðaskiptingu og hafnar hugmyndum um opnun milli svæða á strandveiðum. Þá var þar samþykkt að heimilt verði að flytja óveiddan strandveiðiafla milli ára eins og gildir um aðrar úthlutanir.

Fundurinn var mótfallinn kvótasetningu á grásleppu og lagði til að þær breytingar yrðu gerðar á fyrirkomulagi veiðanna að heimilt yrði að taka upp net í brælutíð án þess að dagafjöldi bátanna til veiða verði skertur.

Fundurinn „mótmælir harðlega þeirri aðferðafræði sem hefur verið viðhöfð við útreikninga á meðafla í grásleppunet. Það er að segja uppreikning á fugli og sel úr veiðieftirlitsferðum Fiskistofu.“ Fundurinn krefst frjálsra handfæraveiða smábáta á makríl, vill að netaveiðar á krókaaflamarksbátum verði leyfðar frá 1. september til 15. apríl ár hvert og að tryggt verði að krókaaflamarkskerfið og aflamarkskerfið sameinist ekki.

Á fundinum var Þorlákur Halldórsson kjörinn formaður landssambandsins í stað Axels Helgasonar, sem ekki gaf kost á sér til áframhaldandi formennsku. Þorlákur var einn í framboði.

Deila: