Tryggja verði sjálfbæra þróun á norðurslóðum
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði áherslu á tryggja sjálfbæra þróun efnahags- og viðskiptalífs á norðurslóðum, í sátt við við umhverfið á svæðinu, í ávarpi á Hringborði norðurslóða.
Utanríkisráðherra lagði höfuðáherslu á að tryggja sjálfbæra og friðsamlega þróun á norðurslóðum á sama tíma og augu beindust í æ ríkari mæli að svæðinu. Gæta yrði að umhverfinu, óvíða væru áhrif loftslagsbreytinga sýnilegri en á norðurslóðum og að þær hefðu svo aftur áhrif um allan heim. Alþjóðleg samvinna ríkja væri lykillinn að því að takast á við þær.
Með bráðnun íss á norðurslóðum breyttust aðstæður sem margir horfðu til, t.d. í flutningum, en leiðin á milli Asíu og Norður-Evrópu styttist um allt að 40% væri farið norður fyrir Rússland. Á síðasta ári hefðu um 7,6 milljón tonn verið flutt þá leið og gert væri ráð fyrir að 35 milljónir tonna yrðu flutt sömu leið árið 2025.
“Norðurslóðir eru að opnast, í eiginlegum og óeiginlegum skilningi og því er tímabært að ræða þær sem viðskiptasvæði. Nýir möguleikar og áskoranir eru að líta dagsins ljós í viðskiptum, flutningum, ferðamennsku, fjárfestingum, námugreftri, rannsóknum, þjónustu og félagslegri þróun, svo eitthvað sé nefnt,” sagði ráðherra.
Sagði hann mikilvægt að sinna þessu verkefni í gegnum Viðskiptaráð norðurslóða, sem stofnað var 2014 til að greiða fyrir viðskiptum og ábyrgri efnahagsþróun. Margar áskoranir fylgdu þessum breytingum í tengslum við umhverfi, öryggi og innviði á svæði sem um 4 milljónir manna byggja.
“Efnahagsþróun á norðurslóðum verður ekki aðeins að vera sjálfbær og taka tillit til viðkvæmra vistkerfa, hún á líka að nýtast þeim sem á svæðinu búa; með bættum innviðum, heilsugæslu, skólum, samskiptakerfum og öðrum þáttum nútíma samfélags,” sagði ráðherra.
Fara yrði með gát í efnahagsþróun á norðurslóðum og byggja á traustri vísindalegri og tæknilegri þekkingu sem fengist hefði með reynslu af svæðinu. “Takist okkur að finna hinn gullna meðalveg, er ég sannfærður um að framtíð norðurslóða er björt, bæði fyrir náttúruna, viðskipti og íbúa.”